Samráðsfundir með fulltrúum atvinnulífsins

Samgöngur Umhverfi

Fulltrúar á fundi Reykjavíkurborgar og Samtökum iðnaðarins á tröppum Höfða

Tveir samráðfundir Reykjavíkurborgar með fulltrúum atvinnulífsins fóru fram í Höfða í gær.

Fyrri fundurinn var með fulltrúum frá Samtökum iðnaðarins og sá síðari með fulltrúum frá Félagi atvinnurekenda. Tilgangur fundarins er að halda áfram reglubundnu samtali og samráði við fulltrúa atvinnulífsins með það að markmiði að borgin og atvinnulífið í Reykjavík skilji betur gagnkvæmar þarfir og væntingar.

Sambærilegir fundir hafa verið haldnir með fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu og er stefnt að því að halda fundi með fleiri hagsmunaðilum í sumar og í haust.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sat fundinn af hálfu borgarinnar auk sviðsstjóra, borgarritara og sérfræðinga innan borgarinnar í eigna- og atvinnuþróunarmálum.

Þórdís Lóa sagði að fundirnir hafi allir verið mjög gagnlegir. „Fundirnir hafa allir verið afar mikilvægir fyrir okkur í þeirri vegferð sem við erum í til þess að auka samráð og formgera samvinnu með atvinnulífinu.  Forsvarsmenn hagsmunasamtaka hafa jafnframt tekið afar vel í þessa vinnu og samtalið verið opið og gott“.