Samnorræn jólastund í Heiðmörk

""

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, felldi Oslóartréð  á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í morgun. Þórdís Lóa klæddist viðeigandi öryggisbúnaði og fékk verkfæri til verksins og naut liðsinnis starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Við hús félags Norðmanna á Íslandi að Thorgeirsstöðum var búið að koma upp varðeldi og boðið  upp á ketilkaffi, kakó, saft, vínarbrauð og kökur. Norski sendiherrann, Hilde Svartdal Lunde, bauð upp á norskt konfekt.

Vel gekk að fella tréð og eftir mælingar var ljóst að tréð var 14,5 metra langt sitkagrenitré sem er um það bil 50 ára gamalt.

Tréð verður sett upp á Austurvelli og jólaljósin tendruð á trénu þann 2. desember nk. Oslóarborg hefur aðkomu að viðburðinum.

Reykjavíkurborg færir Þórshafnarbúum tré að gjöf. Tréð var fellt fyrr í mánuðinum og er komið í skip. Það kemur til með að prýða Tinghúsvöllinn  í miðborg Þórshafnar. Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar mun tendra tréð í Þórshöfn laugardaginn 1. desember nk. Fulltrúar Færeyja voru viðstaddir fellinguna í Heiðmörk í morgun.

Eimskip sem hefur í gegnum árin flutt Oslóartréð til Íslands mun sjá um flutning á trénu til Færeyja.