Samningur milli Reykjavíkurborgar og Stígamóta endurnýjaður

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri handsala samninginn. Með þeim eru fulltrúar í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri handsala samninginn. Fulltrúar í velferðarrráði standa á bakvið þau.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Drífa Snædal, talskona Stígamóta, skrifuðu fyrr í dag undir þriggja ára samning um þjónustu við Reykvíkinga sem beittir hafa verið kynferðislegu ofbeldi. Hjá Stígamótum er veitt ráðgjöf, stuðningur, fræðsla og upplýsingagjöf til þolenda kynferðisbrota.

Reykjavíkurborg og Stígamót hafa lengi átt í gjöfulu samstarfi. Samtökin hafa allt frá stofnun þeirra árið 1990 verið leiðandi í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Í samningnum milli Reykjavíkurborgar og Stígamóta felst að samtökin veiti brotaþolum ráðgjöf sem miðar að því að styðja þá og styrkja. Þeim gefst jafnframt tækifæri til þátttöku í hópastarfi og að þiggja símaþjónustu. Markmiðið með stuðningi og ráðgjöf er að auka lífsgæði þeirra einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, með sjálfstyrkingu og úrvinnslu afleiðinga ofbeldisins.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur einnig notið góðs af ýmiss konar fræðslu frá Stígamótum í gegnum tíðina. Í samningnum felst að framhald verður á því. Starfsfólk Stígamóta mun áfram veita starfsfólki Reykjavíkurborgar og barnaverndar fræðslu og upplýsingar um kynferðisofbeldi, með það að markmiði að bæta þekkingu á kynferðisofbeldi og auka hæfni þeirra sem koma að málaflokknum. Þá verður lögð áhersla á frekara samstarf varðandi fræðslu, meðal annars um vændi og leiðir til að aðstoða fólk sem vill komast úr því.  

Á samningstímanum greiðir Reykjavíkurborg 11.880.000 króna á ári. Gildistími samningsins er  þrjú ár, 1. janúar 2022 til 31. desember 2024.