Samkomulag um þjónustu við einstæða foreldra

""

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, handsöluðu sl. föstudag samkomulag um áframhaldandi samstarf ráðuneytisins og borgarinnar um TINNU verkefnið, verkefni sem felst í því að veita einstæðum foreldrum margvíslega og þverfaglega þjónustu með velferð barna að leiðarljósi.

TINNA í öll hverfi og fræðsla til sveitarfélaga

Þegar TINNU-verkefnið hófst fyrir fjórum árum var það sniðið að þörfum einstæðra foreldra á fjárhagsaðstoð í Breiðholti. Á þessu ári verður verkefnið fært út til allra hverfa í borginni og jafnframt mun það ná til foreldra sem fá örorkulífeyri til framfærslu. Þá er gert ráð fyrir að öðrum sveitarfélögum, sem hafa áhuga á að innleiða verkefnið, verði boðin fræðsla um það.

 „TINNA hefur þegar skilað framúrskarandi árangri í þágu barna og barnafjölskyldna í Breiðholti. Það er því afar ánægjulegt að fá ekki bara að styðja áfram við þessa metnaðarfullu vegferð hjá borginni heldur taka þátt í því að útvíkka verkefnið frekar,“ sagði Ásmundur Einar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ánægður með áframhaldandi samstarf við velferðarráðuneytið. „Ég er mjög stoltur af TINNU-verkefninu sem hefur skilað góðum  árangri á undanförnum árum. Það snýst um að fá fólk til að taka þátt í því sem samfélagið hefur upp á að bjóða og byggja það upp. Það hefur reynst fólki í viðkvæmri stöðu afar mikilvægt og þess vegna erum við að fara með verkefnið í öll hverfi. “ sagði Dagur.

Betri lífsgæði

Velferðarsvið Reykjavíkur ber ábyrgð á TINNU-verkefninu sem er hluti af Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi hjá þjónustumiðstöð Breiðholts. Meginmarkmiðið er að bjóða þátttakendum heildstæða þjónustu sem stuðlar að bættum lífsgæðum fjölskyldna, virkri þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði, eftir því sem við á. TINNA er klæðskerasniðin aðstoð og eru námskeið og fræðsla sniðin að þörfum og óskum hvers og eins. Börn þátttakenda í TINNU fá m.a. stuðning og hvatningu til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og aðra þjónustu eftir þörfum.

Fyrirmyndamódel í vinnu með einstæða foreldra og börn þeirra

Alls hafa 63 þátttakendur og 102 börn verið með í TINNU og af þeim hefur 21 þátttakandi útskrifast og farið út á vinnumarkað, í nám eða fengið örorkumat. Samkvæmt óháðri úttekt sem gerð var á verkefninu sumarið 2018 kom í ljós að tækifæri og þátttaka barna í skipulögðum tómstundum jókst til mikilla muna. Verkefnið hefur því þróast í fyrirmyndamódel sem mikilvægt er að styrkja og þróa áfram. Nú eru þátttakendur í TINNU-verkefninu 41 fullorðinn og 72 börn. 

Úttekt á starfsemi TINNU 2016-2018