Samið við Capacent og RR ráðgjöf um úttekt á barnaverndarstarfi

Velferð

""

Í dag var undirritaður samningur milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og fyrirtækjanna Capacent og RR ráðgjafa um úttekt á barnaverndarstarfi í Reykjavík. Um er að ræða umfangsmikla úttekt sem tekur til skipulags barnaverndarstarfs hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur hennar er að greina þá þjónustu sem velferðarsvið veitir á grundvelli félagsþjónustu og barnaverndarlaga.

Horft verður meðal annars til þeirra stuðningsúrræða sem velferðarsvið býður upp á, hvernig þau eru nýtt og aðgengi að þeim. Einnig verður horft til samspils þjónustumiðstöðva og Barnaverndar Reykjavíkur með það í huga að kanna hvort þjónustukeðjan sé skilvirk og árangursrík. Þá verður kortlögð þjónusta utanaðkomandi aðila sem koma að málefnum barnafjölskylda, skipulag starfsins hjá Barnavernd Reykjavíkur og starfsumhverfi starfsmanna.

Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra er mikilvægt að tryggja það að samspilið milli þjónustumiðstöðva og barnaverndar sé skilvirkt til að þjónustan nýtist barnafjölskyldum sem best. Einnig er nauðsynlegt að  styrkja starfsumhverfi starfsmanna barnaverndar en starfið er mjög krefjandi og reynir á marga þætti.

Úttekt á barnaverndarstarfi var samþykkt í velferðarráði haustið 2017 og gert var ráð fyrir úttektinni á fjárhagsáætlun ársins 2018.