Ráðgjafafyrirtækið Alta, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Umhverfisstofnun fengu samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar sem veitt var í dag.
Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar var nú veitt í sjöunda skiptið. Auglýst var eftir umsóknum eða tilnefningum frá fyrirtækjum, félagsamtökum, stofnunum og einstaklingum. Dómnefndin byggir iðulega val sitt á árangri af aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að gera starfsfólki fært að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn og stuðla að notkun vistvænna orkugjafa.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs afhenti fulltrúum Alta, Umhverfisstofnunar og Fjölbrautaskólans við Ármúla viðurkenninguna í Samgönguviku 2018.
Alta
Alta er ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagi og byggðaþróun, greiningu lands og búsetu, stefnumótun og verkefnisstjórnun. Alta fékk samgönguviðurkenningu frá Reykjavíkurborg árið 2012 en hefur bætt sig enn frekar síðan þá. Dæmi:
- Árið 2015 skrifaði Alta undir yfirlýsingu um loftslagsmál með því markmiðið „að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.“
- Alta vill draga markvisst úr ferðum vegna vinnu og ferða til og frá vinnu. Það hefur gengið vel þar sem 85% starfsmanna koma hjólandi eða með Strætó í vinnuna að staðaldri, eða 11 af 13 starfsmönnum.
- Árið 2014 var ákveðið að öllum starfsmönnum stæðu samgöngusamningar til boða og eru 58% starfsmanna með slíkan samning.
- Ferðavenjur starfsfólks hafa verið skráðar frá árinu 2011 en starfsmenn skrá niður vistvæna og óvistvæna kílómetra á hverjum degi.
- Alta tekur ávallt þátt í Lífshlaupinu á vegum ÍSÍ og einnig Hjólað í vinnuna og varð í 1. sæti í sínum flokki (í hlutfalli daga) árið 2017.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
FÁ er framhaldsskóli sem hefur staðið framarlega meðal íslenskra framhaldsskóla í umhverfisstarfi síðastliðin ár. Dæmi um kosti:
- Skólinn er með hjólastæði undir þaki og mörg opin hjólastæði fyrir nemendur og starfsfólk.
- Aðgangur að bílastæðum er lokaður með aðgangshliði. Nemendur þurfa að greiða 6500 kr. fyrir afnot af bílastæði fyrir eina önn.
- FÁ var annar vinnustaðurinn á Íslandi og fyrsti skóli landsins til að bjóða starfsmönnum sínum upp á samgöngusamning.
- Einnig var hann fyrsti framhaldsskólinn á Íslandi til að hljóta Grænfánann og setja sér sjálfbærnistefnu.
- Í skólanum býðst nemendum að taka þátt í íþróttaáfanga sem nefnist hjólað/gengið í skólann og fá fyrir það einingu/ar.
- Þá var skólinn fyrsti framhaldsskólinn á höfuðborgarsvæðinu til að setja upp hleðslustaura fyrir rafbíla, ætlaða bæði starfsmönnum og nemendum.
Umhverfisstofnun
Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Dæmi um kosti:
- Umhverfisstofnun býður starfsmönnum sínum upp á samgöngusamning og hefur gert um árabil en um nokkrar tegundir af samgöngusamningum er um að ræða.
- Boðið er upp á heilsárs-samgöngusamning, sumarsamning og einnig samning fyrir þá sem hjóla og ganga á fundi. Stofnunin greiðir árskort fyrir almenningssamgöngur og andvirði þess til starfsfólks sem kýs að ganga eða hjóla til og frá vinnu.
- Umhverfisvænni samgöngumátar hjá Umhverfisstofnun hafa aukist milli ára og árið 2017 voru 54% starfsmanna sem hjóluðu, gengu eða notuðu strætó til og frá vinnu.
- Á undanförnum árum hefur stofnunin lagt mikla áherslu á góðan fjarfundarbúnað og að starfsmenn nýti sér hann fremur en að fara í ferðalög milli staða.
- Umhverfisstofnun er með góða hjólaaðstöðu og fær fyrir það afhenta Gull hjólavottun vinnustaða frá Hjólafærni núna í samgönguvikunni.
- Þá er einnig hafin vinna við breytingar á bílastæði fyrir framan hús Umhverfisstofnunar á Suðurlandsbraut þar sem bæta á aðkomu fyrir fatlaða einstaklinga. Sett verða upp hjólastæði og tvær hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.
Tengill
Hjólum til framtíðar 21. september