Samgöngusamningar við starfsmenn Reykjavíkurborgar | Reykjavíkurborg

Samgöngusamningar við starfsmenn Reykjavíkurborgar

föstudagur, 31. mars 2017

Reykjavíkurborg er langstærsti vinnustaður landsins sem býður starfsfólki sínu samgöngusamninga.

  • Fjölmargir kjósa að hjóla allra sinna ferða.
    Fjölmargir kjósa að hjóla allra sinna ferða.
  • Fjölmennt er á hjólastígunum í borginni. e
    Fjölmennt er á hjólastígunum í borginni.

Samningar við einstaka starfsmenn verða annað hvort að upphæð 36.000 kr. fyrir starfsmenn í hlutastarfi eða 72.000 krónur fyrir fólk í hálfu og fullu starfi og taka þeir gildi 1. september næstkomandi. 

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að gerðir verði samgöngusamningar við starfsmenn Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnti málið á ráðstefnu um samgöngumál, Léttum umferðina, sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Markmiðið með samgöngusamningum er að auka hlutfall starfsmanna sem nýta vistvænar samgöngur vegna ferða til og frá vinnu eða vegna ferða í þágu vinnuveitanda.

,,Borgin er stolt af því að geta boðið starfsfólki upp á samgöngusamninga. Verkefnið nýtist hins vegar ekki bara þeim heldur öllum borgarbúum. Markmiðið er að létta á álagstímum í umferðinni, draga úr mengun og útblæstri, bæta kjör borgarstarfsfólks og stuðla að heilsueflingu, en rannsóknir sýna að þeir sem síður nota bíl hreyfa sig meira og veikjast minna. Borgin vill líka hvetja öll stærri fyrirtæki og vinnustaði til að grípa til svipaðra ráðstafana. Við léttum á umferðinni, og bætum loft og lífsgæði saman - með samstilltu átaki," segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

Lykilaðgerð loftslagsáætlunar

Samgöngusamningar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar eru ein af lykilaðgerðum loftslagsáætlunar borgarinnar sem mun stuðla að því að minnka álagstoppa í umferðinni kvölds og morgna og ýta undir fjölbreyttari ferðamáta.

Samgöngusamningur er formlegur samningur á milli vinnuveitenda og starfsmanna sem kveður á um að starfsmenn noti vistvænan samgöngumáta til og frá vinnu. Í samningunum er jafnan tilgreint hvaða skilyrði starfsmenn þurfa að uppfylla, þ.e. hve oft í viku ætlast er til þess að þeir noti aðra samgöngumáta en einkabíl. Við undirritun samningsins skuldbindur vinnuveitandi sig til að styrkja viðkomandi starfsmann, t.d. í formi mánaðarlegra greiðslna.

Greiðslu vegna samgöngusamnings er ætlað að standa undir kostnaði vegna vistvæns ferðamáta, s.s. fargjalda með strætó, fatnaðar, reiðhjóls eða annars kostnaðar. Með undirritun samgöngusamnings skuldbindur starfsmaður sig til að koma til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Kostnaður Reykjavíkurborgar við samgöngusamninga 

Hér að neðan má sjá hver kostnaðurinn yrði miðað við 70, 50 og 30% þátttöku starfsfólks.

""

Greiðslur vegna samgöngusamninga verða 6.000 krónur á mánuði á mann eða 72.000 krónur á ársgrundvelli fyrir starfsfólk í 50% - 100% starfi en 3.000 krónur á mánuði eða 36.000 krónur fyrir starfsfólk í 33% - 49% starfi.

Fyrstu niðurstöður úr nýrri viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem framkvæmd var nú í mars gefa vísbendingar um að tækifæri sé til að auka hlutfall starfsmanna sem ferðist að jafnaði með vistvænum hætti.  Niðurstöðurnar sýna að ríflega 30% þeirra starfsmanna sem svara könnuninni ferðast þrisvar til fimm sinnum í viku með vistvænum hætti til og frá vinnu. Þar af eru um níu prósent starfsmanna sem ferðast með strætó þrisvar sinnum í viku eða oftar og um tvö prósent starfsmanna svara því til að þeir hjóli í vinnuna þrisvar sinnum eða oftar í viku. Um 22% starfsmanna ganga til og frá vinnu þrisvar sinnum í viku eða oftar.

Innleiðing hlúir að heilsu starfsmanna

Ávinningur samgöngusamninga er m.a. að þeir hvetja starfsmenn til að nýta sér vistvæna samgöngumáta. Ætla má að innleiðing þeirra auki hlutfall starfsmanna sem ferðast að jafnaði með vistvænum hætti auk þess sem gera má ráð fyrir fjölgun notenda almenningssamgangna.

Innleiðing samgöngusamninga styður auk þess við stefnu Reykjavíkurborgar um að hlúa að heilsu starfsmanna. Starfsfólk sem stundar reglulega hreyfingu er almennt við betri heilsu og má því gera ráð fyrir að dragi úr fjarvistum vegna veikinda. Þá hefur sýnt sig að samgöngusamningar draga úr álagi á bílastæði vinnustaða. Áætlað er að um 6.476 starfsmenn Reykjavíkurborgar uppfylli skilyrði fyrir fullum samgöngustyrk og 614 starfsmenn uppfylli skilyrði fyrir hálfum styrk. 

Mannauðsdeild Ráðhúss er falin innleiðing samgöngusamninga og að leggja fram mat á kostnaði vegna innleiðingu þeirra fyrir 1. september n.k.