Róttækar tillögur um starfsemi dagforeldra | Reykjavíkurborg

Róttækar tillögur um starfsemi dagforeldra

fimmtudagur, 28. júní 2018

Starfshópur, undir formennsku Þórlaugar B. Ágústsdóttur, hefur kynnt fyrir skóla- og frístundaráði tillögur sínar um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík.

  • Börn hjá dagforeldrum
    Börn hjá dagforeldrum

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að borgin stuðli markvisst að því að fjölga þeim dagforeldrum sem starfi tveir saman með því að bjóða þeim húsnæði  á hóflegu leiguverði undir starfsemina. Farið verði í kynningarátak og auglýsingaherferð til að fjölga dagforeldrum með tilvísun til þessa möguleika á húsnæði.

Þá er lagt til að niðurgreiðslur til dagforeldra hækki í áföngum þannig að kostnaður foreldra verði sambærilegri við það ef barn væri á leikskóla. Í fyrsta áfanga hækki niðurgreiðslurnar um 25% eða um 13.768 kr. á mánuði.

Einnig leggur starfshópurinn til að innleiddur verði 200.000 kr. árlegur aðstöðustyrkur til dagforeldra til að mæta kostnaði þeirra vegna húsnæðis og aðbúnaðar í starfsemi þeirra. Til að ýta undir nýliðun í starfsstéttinni og til að mæta kostnaði vegna aðlögunar á húsnæði og kaupa á nauðsynlegum aðbúnaði vegna starfseminnar verði greiddur stofnstyrkur til dagforeldra að upphæð 300.000 kr. á ári. 

Þá er lagt til að framlag borgarinnar vegna grunnnámskeiðs fyrir verðandi dagforeldra verði hækkað og að dagforeldrar fái að fullu greiddan kostnað við slysavarna- og eldvarnarnámskeið. Einnig að þeir fái aukin símenntunartilboð og aðgengi að faglegu samstarfi við leikskóla. 

Aðrar tillögur starfshópsins snúa að því að bæta upplýsingagjöf af hálfu dagforeldra, að ytra mati og öryggi í starfseminni, ráðgjöf og miðlægri innritun barna til dagforeldra.

Næsta skref er að kostnaðarmeta og forgangsraða tillögum starfshópsins og er stefnt að því að áætlun þar um verði lögð fyrir skóla- og frístundaráð í ágúst.

Sjá skýrslu starfshópsins