Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa hlýtur Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021

Velferð Skóli og frístund

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Rótinni, félagi um konur, áföll og vímugjafa, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021 í tengslum við  mannréttindadag Reykjavíkurborgar. Hinsegin félagsmiðstöð, Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar fékk Hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Mannréttindaverðlaunin eru nú veitt í fjórtánda sinn en þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og mikilvægi samfélags þar sem mannréttindi eru virt. Handhafi mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar hlýtur að launum kr. 600.000,-.

Í umsögn  valnefndar kemur fram að „félagið hefur haft mikil áhrif á umræðu með uppbyggilegri og rökstuddri gagnrýni innan málaflokksins, ekki síst á staðnað meðferðarkerfi. Félagið hefur hvatt hið opinbera til nútímalegrar stefnumótunar og aukins gæðaeftirlits og skrifað fjölda erinda til stjórnvalda, eftirlitsaðila og annarra sem koma að þessum málaflokki ”.

Rótin félag um konur, áföll og vímugjafa  hefur unnið ötullega að mannréttindum kvenna með vímuefnavanda og/eða áfallasögu. Markmið Rótarinnar er að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið hefur komið á mikilvægu samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem hafa helgað sig vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, sagði við afhendingu verðlaunanna í dag að það væri mikilvægt að fá þessa viðurkenningu. „Það er mikilvægt að viðurkenna mannréttindi þessa jaðarsetta hóps og vekja athygli á málstað og starfsemi Rótarinnar“.

Hinsegin félagsmiðstöð, Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar hlýtur Hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2021

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs afhenti fulltrúum Hinsegin félagsmiðstöðvar, Samtakanna ´78 og frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar Hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrir þróunar- og nýbreytnistarf einstaklinga, borgarstofnana og fyrirtækja á sviði mannréttinda- og lýðræðismála fyrir verkefni sem þykja stuðla að auknu jafnræði, vinna gegn margþættri mismunun og leggja áherslu á jafna stöðu allra kynja.

Í rökstuðningi segir:

„Hinsegin félagsmiðstöðin hefur miðlað góðri fræðslu til skóla og félagsmiðstöðva um alla borg, fræðslu sem svo sannarlega er mikil þörf fyrir og hefur stuðlað að auknum skilningi á líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna.“ 

Hinseginleikanum er sérstaklega fagnað í félagsmiðstöðinni, hann er viðmið en ekki frávik. Lagt er upp með að skapa öruggt rými fyrir einstaklingana sem sækja starfið og að þátttaka í starfinu hvetji þau til að finna öryggi í að taka þátt í öðru skipulögðu frístundastarfi.