Rótin tekur við rekstri Konukots

Velferð Mannréttindi

Kristín I. Pálsdóttir á tröppum Konukots

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur gengið til samninga við Rótina, félag um konur, áföll og vímugjafa, um rekstur á Konukoti, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Talskona Rótarinnar segir samstarfið leggjast vel í hana. Hjá Konukoti verði skaðaminnkandi nálgun áfram í forgrunni. 

„Samstarfið við velferðarsvið Reykjavíkurborgar leggst afar vel í okkur. Við finnum mikinn vilja fyrir því hjá borginni að veita húsnæðislausum konum góða þjónustu og erum sannarlega tilbúnar að taka þátt í því,“ segir Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, félags um konur, áföll og vímugjafa. 

Fyrr í vikunni gekk velferðarsvið til samninga við Rótina um rekstur Konukots, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur sem opið er á milli klukkan 17 og 10, alla daga ársins. Í Konukoti eru uppbúin rúm fyrir átta konur en þar er mögulegt að taka við allt að fjórum konum til viðbótar í gistingu þegar þörf krefur. Öll þjónusta í Konukoti er konunum sem þar dvelja að kostnaðarlausu. 

Það var Rauði krossinn á Íslandi sem stofnaði Konukot sem tilraunaverkefni árið 2004. Rauði krossinn verður áfram í nánu samstarfi við velferðarsvið þegar kemur að málaflokknum, meðal annars í gengum Frú Ragnheiði – skaðaminnkun. „Rauði krossinn á Íslandi hefur annast þennan málaflokk afskaplega vel og við erum þeim afar þakklát,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. 

Konukot verður áfram rekið í nánu samstarfi við Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar (VoR) sem mun veita konum sem þar dvelja þjónustu. Ein af þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem taka að sér rekstur Konukots er að þar verði áfram unnið eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þá á þjónustan að vera áfalla- og kynjamiðuð, sem felur meðal annars í sér að þau sem veita þjónustuna taki mið af víðtækum áhrifum áfalla og hafi skilning á mögulegum leiðum til bata, beri kennsl á einkenni áfalla og samþætti þekkingu á áföllum inn í stefnu, verkferla og framkvæmd þjónustunnar.  

Allt fellur þetta vel að þeirri hugmyndafræði sem Rótarkonur hafa unnið eftir frá upphafi, líkt og Kristín rifjar upp. „Rekstur Konukots fellur vel að því sem við hjá Rótinni höfum verið að beita okkur fyrir. Rauði krossinn hefur sinnt Konukoti vel og hér er hæft starfsfólk sem við treystum mjög vel. Við tókum þetta verkefni að okkur með stuttum fyrirvara, svo við förum ekki í miklar breytingar til að byrja með. Nú förum við í kynnast starfseminni og skoðum þegar fram líðar stundir hvaða möguleikar eru til breytinga, í góðu samstarfi við konurnar sem nota þjónustuna,“ segir Kristín. 

Kristín var í hópi þeirra kvenna sem stofnuðu Rótina árið 2013, eftir að hafa komist að raun um að það skorti á þjónustu við konur í vímuefnavanda. Síðan þá hafa þær beitt sér fyrir bættri þjónustu við konur í þessari stöðu, meðal annars með því að þrýsta á um stefnumótun og gæðaeftirlit og halda úti fjölbreyttri fræðslu, oft í samstarfi við Reykjavíkurborg, opinberar stofnanir og samtök. Hún segir miklar og örar breytingar hafa átt sér stað í málaflokknum á undanförnum árum. „Mikilvægasta breytingin innan kerfisins er að mínu mati aukin áhersla á skaðaminnkandi nálgun, sem við munum hafa í forgrunni áfram hér í Konukoti,“ segir Kristín að lokum. 

Hér má lesa meira um Rótina.