Romaine salat frá Bandaríkjunum mögulega mengað af shiga toxín myndandi E. coli bakteríu

""

Romaine salat frá Bandaríkjunum getur verið mengað af shiga toxín myndandi E. coli bakteríu. 

Með hliðsjón af neytendavernd vilja Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Krónan ehf. vekja athygli neytenda á að romaine salat frá Bandaríkjunum getur verið mengað af svokallaðri shiga toxín myndandi E. coli bakteríu (STEC).  Krónan ehf. hefur flutt inn romaine salat frá Bandaríkjunum og dreift í verslunum Krónunnar en einnig hefur romaine salat frá Bandaríkjunum verið notað í Cesarsalat með kjúklingi, vörumerki Eldhúsið, sem framleitt er af Hollt og gott fyrir Krónuna.  Krónan ehf. hefur tekið romaine salat sem flutt var inn frá Bandaríkjunum úr sölu í verslunum fyrirtækisins.  Romaine salat frá Ítalíu er notað í nýja framleiðslu af Cesarsalati með kjúklingi.

Krónan bendir viðskiptavinum sem keypt hafa romaine salat frá Bandaríkjunum í verslunum Krónunnar eða Cesarsalat með kjúklingi, vörumerki Eldhúsið, framleitt 20. nóvember eða fyrr, að neyta matvælanna ekki og farga þeim eða skila í verslun Krónunnar og fá endurgreitt.

Vakin er athygli á að um varúðarráðstöfun er að ræða en shiga toxín myndandi E. coli hefur ekki greinst í romaine salati sem flutt hefur verið inn til Íslands.  Jafnframt er vakin athygli á að umrædd varúðarráðstöfun á einungis við romaine salat sem flutt hefur verið inn frá Bandaríkjunum.

Krónan og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetja almenning til að skola grænmeti vel fyrir notkun.  Á vefsíðu Matvælastofnunar eru heilræði um meðferð grænmetis sem nota á í ferskt salat: http://www.mast.is/matvaeli/medhondlun-hreinlaeti/graenmeti/. 

Á vefsíðu Matvælastofnunar eru nánari upplýsingar um E. coli: http://www.mast.is/matvaeli/matarsykingar/escherichiacoli/.

Nánari upplýsingar veitir: Ólafur Júlíusson hjá Krónunni ehf., olijul@kronan.is