
Kaupverðið sem Reykjavíkurborg hefur þegar greitt fyrir landið samkvæmt samningi er 440 mkr en viðbótargreiðslur koma til þegar lóðir verða seldar, skv. sérstökum ákvæðum í fyrirliggjandi samningum.
Borgarstjóri hefur óskað eftir tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar um hvernig staðið verði að skipulagi og undirbúningi uppbyggingar á svæðinu, í samræmi við upprunalegan samning um kaup á landinu. Svæðið er ekki síst hugsað til að mæta brýnni þörf fyrir uppbyggingu húsnæðismarkaðar. Tillögur að verklagi eiga að liggja fyrir eigi síðar en 10. september 2016.
Uppbyggingarsvæðið í Skerjafirði er stórt eða alls rúmir 17 hektarar lands. Landið sem borgin kaupir af ríkinu eru rúmir 11 hektarar eða um 63% af landinu sem skipulagt verður. Hinn hluta landsins átti borgin fyrir.
Gert er ráð fyrir víðtæku samráði um mótun uppbyggingarhugmynda auk samningsbundins samráðs við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem varðar einkum nýtingu landsins.
Í samningnum frá 2013 segir m.a. að Reykjavíkurborg muni kappkosta að skipulagið í Skerjafirði verði vandað og nýting landsins góð auk þess að svæðið verði að mestu skipulagt sem íbúðabyggð.
Reykjavíkurborg mun ákveða uppbyggingarhraða svæðisins skv. samkomulaginu en skuldbindur sig til að sölu byggingarréttar verði hraðað einsog kostur er.