Reykvíkingar færa Þórshafnarbúum jólatré

Jólatréð frá Reykvíkingum stendur á Vaglinum í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum

Kveikt var á ljósunum á jólatrénu, sem er gjöf frá Reykvíkingum til Þórshafnarbúa, á Tinghúsvellinum í Færeyjum á laugardaginn 25. nóvember.

Þetta er í ellefta sinn sem Reykvíkingar gefa Færeyingum tré að gjöf, en tréð var fellt í Heiðmörk á svæði Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði. Um er að ræða sitkagrenitré og sá Eimskip um flutning trésins til Þórshafnar.

Borgarstjórahjónin Dagur B. Eggertsson og Arna Dögg Einarsdóttir ásamt Heðin Mortensen borgarstjóra Þórshafnar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og eiginkona hans Arna Dögg Einarsdóttir voru í Þórshöfn og afhenti Dagur Þórshafnarbúum formlega tréð við hátíðlega athöfn á Tinghúsvöllinum á laugardaginn. Heðin Mortensen, borgarstjóri, þakkaði Reykvíkingum fyrir tréð og sagði að síðustu vikur hafi hugur landsmanna verið hjá Grindvíkingum 

Jólasveinninn eða jólamaðurinn, eins og Færeyingar segja, var í körfubíl og sveif yfir trénu þegar hann kveikti á ljósunum. Fjöldi fólks var samankominn til að taka þátt í hátíðahöldunum og var veður með ágætum í Þórshöfn á laugardaginn og jólatréð er fallega skreytt. Gestum og gangandi var boðið upp á konfekt og flutt voru jólalög.