Reykjavíkurborg tekur yfir veghald nokkurra vega frá Vegagerðinni

Frá og með 1. janúar 2022 fluttist veghald og þar með ábyrgð á rekstri og viðhaldi eftirtalinna vega frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar: Mýrargata, Geirsgata og Kalkofnsvegur, frá Ánanaustum að Hörpu (Faxagötu). Stekkjarbakki, Höfðabakki og Gullinbrú, frá Smiðjuvegi að Hallsvegi.

Samtals eru þetta um sex km vega, svokallaðra skilavega, en við gildistöku vegalaga nr. 80/2007 færðust ákveðnir vegir úr flokki stofnvega og yfir í flokk sveitarfélagsvega. Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að því að færa veghald á þessum vegum til viðkomandi sveitarfélags en það hefur strandað á ýmsu m.a. ósamkomulagi vegna ástands veganna. Það er ekki fyrr en nú að loknum samningi Vegagerðarinnar fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar að veghald færist til borgarinnar. Samningurinn var lagður fyrir borgarráð 6. janúar og samþykktur.

Reykjavíkurborg og Vegagerðin eru skuldbundin til ákveðinna verka samkvæmt samningnum, til að koma vegunum í viðunandi ástand. Framkvæmdir snúa að ýmsum svo sem viðhaldi á slitlögum, steyptum mannvirkjum og götulýsingu. Framkvæmdir eru áætlaðar á árunum 2022 – 2025.

Í greinargerð með lögum nr. 14/2015 kemur fram sá vilji löggjafans að „ekki [sé]gert ráð fyrir að í yfirfærslunni felist aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin“ og að „gert er ráð fyrir að það fjármagn sem nú er á hendi Vegagerðarinnar vegna veghalds þessara vega færist yfir til sveitarfélaganna samhliða yfirfærslunni á grundvelli samninga.“  Samningar náðust ekki um þennan hluta og gerir Reykjavíkurborg því fyrirvara í samningnum við þann þátt sem lýtur að fjármögnun reksturs og viðhalds umræddra vega til framtíðar. Áskilur borgin sér allan rétt til að leita allra leiða til að sækja leiðréttingu á þessu.

Skilgreining stofnvega í vegalögum

Stofnvegir eru skilgreindir í vegalögum sem:
Stofnvegir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vegir á hálendinu sem mikilvægir eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná að fyrstu þvergötu sem tilheyrir gatnakerfi þéttbýlisins og enda þar. Þó er heimilt að láta stofnveg ná til flugvallar og hafnar sem mikilvæg eru fyrir ferðaþjónustu og flutninga.

Áfram eru fjölmargir vegir innan Reykjavíkur stofnvegir í skilningi vegalaga og þar með í eigu og rekstri Vegagerðarinnar, svo sem Miklabraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut, Sæbraut og Reykjanesbraut.

Kort yfir eigendur gatna í Reykjavík