Reykjavíkurborg skapar ríflega þúsund ný störf

Velferð Atvinnumál

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir sem gera ráð fyrir að Reykjavíkurborg skapi 800 ný sumarstörf til viðbótar við 832 störf sem auglýst voru fyrr á árinu og alls verði því ráðið í ríflega 1600 sumarstörf.

Reykjavíkurborg hefur nú undirbúið aðgerðir vegna atvinnuástandsins sem skapast hefur vegna COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi með sérstakri áherslu á hópa sem eru útsettir fyrir því að verða illa úti í breyttu atvinnuástandi.

Aðgerðunum er skipt í þrjá fasa; sumar 2020, haust 2020 og lengri tíma aðgerðir 2021 þegar frekari upplýsinga um ástandið og greiningar á því liggja fyrir.

Lagt er til að áherslan verði einkum á fjóra hópa en ljóst er að þessir hópar skarast að einhverju leyti.  Þeir eru; námsmenn, einyrkjar og sjálfstætt starfandi, innflytjendur og vinnufærir einstaklingar.

Reykavíkurborg hefur nú þegar auglýst sumarstörf og var áætlað að ráða 832 einstaklinga í sumarstörf og auk þess í 100 störf hjá íþróttafélögum og æskulýðssamtökum í samvinnu við íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar. Fjöldi umsækjenda um þessi störf var 1.749. Til viðbótar við þessi störf leggur mannauðs- og starfsumhverfissvið til að 800 ný störf verði sköpuð fyrir námsmenn sem verða án atvinnu í sumar.  Um er að ræða sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri en lagt er til að fjöldi starfa fyrir þá verði 600 og verða þau störf sköpuð í samvinnu við Vinnumálastofnun og eru samþykkt með fyrirvara um að til komi framlag Atvinnutryggingasjóðs sem hluti af átaksverkefni um fjölgun starfa fyrir námsmenn í sumar. Þá verði sköpuð 200 viðbótar sumarstörf fyrir 17 ára. Viðbótar sumarstörf hjá Reykjavíkurborg verða auglýst laus til umsóknar í næstu viku.

Einnig var samþykkt að skapa nú í sumar 100 störf fyrir atvinnuleitendur með bótarétt með fyrirvara um framlag og samvinnu við Vinnumálastofunun um vinnumarkaðsúrræði og að skapa 100 störf fyrir þá sem sækja um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Tillögum um vinnumarkaðsaðgerðir Reykjavíkurborgar er forgangsraðað þannig að hluti þeirra fari strax í framkvæmd, þ.e. þær tillögur sem snúa að sumarstörfum fyrir námsmenn og vinnumarkaðsúrræði fyrir mismunandi hópa þar sem búast má við að stór hluti þeirra sem ekki eiga rétt í Atvinnuleysistryggingasjóði sæki um framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Hluti þeirra tillagna sem snúa að lista og nýsköpunarstörfum fyrir einyrkja eiga að koma til framkvæmda í sumar.

Aðrar tillögur krefjast meiri undirbúnings og eru áætlaðar til framkvæmda í haust og á árinu 2021.

Reykjavíkurborg er einn vinnustaður með afar fjölbreytta og víðtæka starfsemi og þjónustu og munu störf í boði endurspegla það.