Reykjavíkurborg með tvær tilnefningar til íslensku vefverðlaunanna
Í ár eru það Mínar síður sem fá tilnefningu í flokknum tæknilausn ársins og enskt vefsvæði Reykjavíkurborgar sem hlýtur tilnefningu í flokknum samfélagsvefur ársins.
Undanfarin misseri hefur mikið púður verið lagt í að styrkja bæði tækniinnviði og stafræna ásýnd borgarinnar með áherslu á notendamiðaða nálgun og bætt aðgengi að þjónustu. Tilnefningarnar eru því mikilvæg viðurkenning á því öfluga starfi sem unnið er á hverjum degi í stafrænum verkefnum Reykjavíkurborgar.
Öll þjónusta borgarinnar á einum stað
Mínar síður eru þjónustutorg borgarinnar og hjartað í stafrænni starfsemi Reykjavíkur. Markmið Minna síðna er að einfalda líf fólks og fyrirtækja í borginni með því að bjóða upp á betra aðgengi að opinberri þjónustu. Stórbætt rafrænt aðgengi að þjónustu dregur úr sóun, fækkar bílferðum, sparar tíma og flýtir fyrir afgreiðslu.
Stórbætt aðgengi með hjálp vélþýðinga
Enskt vefsvæði Reykjavíkurborgar er metnaðarfullt verkefni og mikilvægt lóð á vogarskálar samfélags- og aðgengismála hjá borginni. Vefurinn byggir á framúrskarandi vélrænni vefþýðingu sem tryggir aðgengi um 15.000 íbúa Reykjavíkurborgar með annað tungumál en íslensku, að mikilvægum upplýsingum. Um er að ræða heljarstórt verkefni, enda er vefur borgarinnar á sífelldri hreyfingu og telur í dag í kringum 15.000 undirsíður og 6.000.000 orð. Til þess að svo stórt þýðingarverkefni gangi upp þarf íslenski textinn sem þýðingin byggir á að vera einfaldur, aðgengilegur og auðlæsilegur. Þá þarf textinn að vera skrifaður með notendur vefsins í huga og byggja á samræmdri hugtakanotkun. Það er því margt sem þarf að koma heim og saman til að allt gangi smurt fyrir sig, og mikið gleðiefni að sjá afrakstur áralangrar vinnu skila sér.
Íslensku vefverðlaunin verða haldin í Gamla Bíói föstudaginn 31. mars næstkomandi.