Reykjavíkurborg leitar að hetjum

Hetjan úr hverfinu stillir sér upp fyrir framan Hallgrímskirkju.

Hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt hefst á morgun í tíunda sinn. Hátt í þúsund hugmyndir hafa orðið að veruleika. Þau sem eiga tillögur sem vinna kosninguna í hverju hverfi fyrir sig verða útnefnd hetjur hverfisins.

Hugmyndasöfnun fyrir lýðræðisverkefnið Hverfið mitt hefst á morgun, 22. september og stendur til 27. október. Þetta er í tíunda sinn sem hugmyndasöfnunin fer fram og hafa 898 hugmyndir orðið að veruleika.

„Sú breyting verður gerð á verkefninu að sá einstaklingur sem á hugmyndina sem vinnur kosninguna í hverju hverfi verður útnefndur Hetja hverfisins. Við verðum með hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur og sigurvegararnir fá ofurhetjuskikkju að gjöf frá Reykjavíkurborg. Hugmyndasöfnunin í ár ætti því að geta orðið skemmtileg keppni á milli íbúa um að senda inn góðar hugmyndir,“ segir Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.

Verður þú hetjan úr hverfinu þínu?

Hverfið mitt er lýðræðisverkefni sem fram fer á tveggja ára fresti. Þar gefst íbúum kostur á að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi með því að senda inn hugmyndir að nýjum verkefnum í öllum hverfum Reykjavíkurborgar. Hugmyndin er að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. 850 milljónir króna eru settar í verkefnið í þetta sinn og skiptist það í hugmyndasöfnun, rafræna kosningu og framkvæmd verkefna.

Íbúar eru hvattir til að senda inn sem flestar hugmyndir, því stærri því betri, en jafnframt eru þeir hvattir til að skila inn vel unnum hugmyndum í samræmi við forsendur hugmyndasöfnunarinnar. Auk þess að lýsa hugmynd í orðum er mögulegt að láta ljósmyndir og teikningar fylgja til skýringar. Einnig er hægt að skila inn hugmynd á myndbandsformi eða sem hljóðupptöku.

Fimmtán vinsælustu hugmyndirnar í hverju hverfi fyrir sig fara í kosningu svo lengi sem þær uppfylla skilyrðin auk þess sem íbúaráð velur tíu hugmyndir til viðbótar og getur þá horft til dreifingar í hverfinu.  Hugmyndir skal senda inn á hverfidmitt.is