Reykjavíkurborg fær Grænu skófluna fyrir Brákarborg

Framkvæmdir Umhverfi

graenaskoflan6

Grænu skófluna árið 2022 hlýtur endurgerð leikskólabygging og lóð Brákarborgar í eigu Reykjavíkurborgar.

Tilkynnt var á Degi Grænni byggðar í dag að bygging leikskólans Brákarborgar að Kleppsvegi 150-152, í eigu Reykjavíkurborgar, hljóti Grænu skófluna en hún var veitt í fyrsta sinn í dag. Um er að ræða ný verðlaun fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum. Þessi hvatningarverðlaun eru tilkomin vegna Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð 2030. 

„Þessi viðurkenning staðfestir allt það sem lá til grundvallar ákvörðun okkar á sínum tíma, og sýnir vel hvernig hægt er að endurbyggja gömul hús og veita þeim nýtt hlutverk – og það á umhverfisvænan hátt!” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem tók við viðurkenningunni.

„Með andlitslyftingu þessa gamla hverfiskjarna við Kleppsveg og innréttingu nýs 120 barna leikskóla fyrir Laugardal og hina nýju Voga-byggðar náðum við sannarlega að slá ótrúlega margar flugur í einu höggi! Við erum stolt af því að hafa með samvinnu þessa frábæra hóps sem er hér í dag náð að lágmarka kolefnisspor borgarinnar með þessu verkefni – og skila af okkur stórglæsilegri byggingu sem er prýði hverfisins og bætir úr gríðarlegri þörf á leikskólaplássum í Reykjavík! Mikill umhverfislegur ávinningur felst í því að endurgera bygginguna við Kleppsveg 150-152 í stað þess að reisa nýja byggingu. Kolefnisspor endurgerðu byggingarinnar við Kleppsveg er töluvert lægra en spor steyptra nýbygginga," segir Dagur borgarstjóri.

Samanburður og umhverfisvottun

„Við gerum samanburð á einstökum byggingahlutum til að tryggja að efnisval sé með besta móti hvað varðar kostnað, viðhald og lágmarka kolefnisspor byggingarinnar,“ segir Gyða Mjöll Ingólfsdóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá umhverfis- og skipulagssviði en við endurgerð bygginganna við Kleppsveg 150-152 voru steypt burðarvirki endurnýtt og ný tengibygging byggð á milli húsanna.

Einnig var unnin vistferilsgreining sem er hluti af BREEAM vottun. Niðurstöður hennar voru meðal annars þær að kolefnisspor fyrir endurgerða byggingu við Kleppsveg er lágt samanborið við kolefnisspor steyptra nýbygginga, eða 410 kgCO2 ígildi/m2.

Kolefnisspor endurgerðar byggingar er fjórðungi lægra en ef sama bygging hefði verið byggð frá grunni. 

Í máli Ragnars Ómarssonar formanns dómnefndar um Grænu skófluna kom fram að þessi bygging sé verðug fyrirmynd fyrir endurbyggingar eldri mannvirkja í framtíðinni. Hún tryggir að framkvæmdin verður sporléttari en ella og kemur í veg fyrir óþarfa framleiðslu og flutning á nýjum byggingarefnum og úrvinnslu úr auðlindum vegna byggingarinnar. 

Borgarstjóri tók við Grænu skóflunni fyrir hönd Reykjavíkurborgar en gripurinn er hannaður af Heklu Dís Pálsdóttur. Einnig fengu aðrir sem komu að hönnun og byggingu mannvirkisins viðurkenningarskjöl.

Elías Bjarnason og Sólveig Björk Ingimarsdóttir verkefnastjórar stýrðu hönnun og framkvæmd fyrir skrifstofu framkvæmda og viðhalds og Gyða Mjöll Ingólfsdóttir verkefnastjóri umhverfismála hafði umsjón með vistferilsgreiningum og BREEAM umhverfisvottun.

Greinargerð um verkefnið vegna Grænu skóflunnar

Frétt hjá Reykjavíkurborg vegna tilnefningar - sjá myndir

Helstu aðilar sem komu að hönnun og byggingu mannvirkisins

Verkefni: Leikskólinn Brákarborg, Kleppsvegi 150-152
Eigandi mannvirkis: Reykjavíkurborg
Arkitekt: Arkís
Burðarvirki: Arkamon
Lagnir: Teknik
Lífsferilsgreiningar: EFLA
Rafkerfi/ljósvist: Liska
Landslagsarkitekt: Kanon arkitektar
Hljóðhönnun: Mannvit
Brunahönnun: Mannvit
BREEAM: Verkís
Verktaki: Þarfaþing
Eftirlit: Verksýn