Bygging Brákarborgar tilnefnd til Grænu skóflunnar

Framkvæmdir Umhverfi

Loftmynd af Brákarborg

Ásýnd svæðisins við Kleppsveg 150-152 er gjörbreytt í kjölfar endurgerðar bygginga á lóðinni og hefur leikskólinn Brákarborg þegar hafið starfsemi sína í húsnæði sem uppfyllir allar nútímakröfur og prýði er að. Endurgerð byggingarinnar er tilnefnd til Grænu skóflunnar, sem er virt viðurkenning Grænni byggðar fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.

Það er sannarlega umhverfislegur ávinningur af  því að ráðist var í endurgerð bygginganna við Kleppsveg samanborið við það að reisa nýbyggingu. Kolefnisspor endurgerðu byggingarinnar við Kleppsveg 150-152 er töluvert lægra en kolefnisspor steyptra nýbygginga.

Kolefnisspor endurgerðar byggingar er fjórðungi lægra en ef sama bygging hefði verið byggð frá grunni. 

Áhersla á sjálfbærni

Unnið er að BREEAM sjálfbærnivottun og er stefnt að því að endurgerð byggingarinnar hljóti þar einkunnina ‚Very good‘ en heildstætt og náttúrulegt útlit einkennir bygginguna. Klæðning úr lerki er utan á húsinu sem virkar jafnframt sem sólskermur til að minnka sólarálag á húsið og torf er á þakinu. Lóðin er afgirt eins og venja er með leikskólalóðir en utan opnunartíma leikskólans nýtist lóðin sem hverfisgarður og er bæði grænn og skemmtilegur samkomustaður fyrir fjölskyldur.

Góð aðstaða er fyrir starfsfólk og nemendur sem ferðast með virkum ferðamátum að heiman og markvisst hefur verið lögð áhersla á heilsu og vellíðan notenda og að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkisins á líftíma þess, meðal annars með umhverfisvænu og endingargóðu efnisvali. Innandyra eru ljósir litir og náttúruleg efni lykilatriði og er mikið um jarðtóna og náttúrulegan við og með áherslu á mjúka og stillanlega birtu.

Vel er hugað að hljóðvist og eru hljóðvistarlausnir innbyggðar í innréttingar. Kröfur voru gerðar um val á byggingarefnum til að koma í veg fyrir eða lágmarka útgufun rokgjarnra lífrænna efna og annarra óæskilegra efna. Niðurstöður loftgæðamælinga staðfesta að kröfur vistvottunarkerfisins BREEAM um útgufun eru uppfylltar.

Lágt kolefnisspor vegna endurnýtingar steypu

Við endurgerð bygginganna við Kleppsveg 150-152 voru steypt burðarvirki endurnýtt og ný tengibygging byggð á milli húsanna. Sem hluti af BREEAM vottun og til að auka þekkingu á umhverfisáhrifum og ávinningi af endurgerð bygginga var unnin vistferilsgreining. Niðurstöður hennar voru meðal annars þær að kolefnisspor fyrir endurgerða byggingu við Kleppsveg er lágt samanborið við kolefnisspor steyptra nýbygginga, eða 410 kgCO2 ígildi/m2.

Rífa eða byggja nýtt?

Til að meta umhverfisleg áhrif þeirrar ákvörðunar að ráðast í endurgerð á Kleppsvegi 150-152 var það metið hvert kolefnisspor byggingarinnar væri ef sama bygging hefði verið byggð frá grunni. Niðurstaðan er sú að í heildina er kolefnisspor endurgerðar byggingar fjórðungi lægra en ef sama bygging hefði verið byggð frá grunni. Ef einungis er horft til kolefnisspors byggingarefna, þá er um að ræða 56% lægra kolefnisspor byggingarefna í endurgerðu mannvirki en ef byggt hefði verið frá grunni. Ástæðan er sú að komið var í veg fyrir framleiðslu og flutninga steypu og steypustyrktarstáls.

Helstu aðilar sem komu að hönnun og byggingu mannvirkisins

Verkefni: Leikskólinn Brákarborg, Kleppsvegi 150-152
Eigandi mannvirkis: Reykjavíkurborg
Arkitekt: Arkís
Burðarvirki: Arkamon
Lagnir: Teknik
Rafkerfi/ljósvist: Liska
Landslagsarkitekt: Kanon arkitektar
Hljóðhönnun: Mannvit
Brunahönnun: Mannvit
BREEAM: Verkís
Verktaki: Þarfaþing