Borgarráð hefur samþykkt að Reykjavíkurborg kaupi fasteignirnar að Arnabakka 2-6 í Neðra Breiðholti og Völvufell 11 og 13 – 21. Reykjavíkurborg hyggst endurlífga þessa hverfiskjarna en jafnframt breyta deiliskipulagi á reitunum.
Við vinnslu hverfisskipulags fyrir Breiðholtið komu fram skýrar kröfur íbúa um að fjárfesting myndi aukast í hverfinu og verslunarkjarnar í hverfinu yrðu gerðir upp með það fyrir augum að þar gæti ný og spennandi þjónusta og verslun fest sig í sessi.
Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar hefur unnið að því samkvæmt ákvörðun borgarráðs að festa kaup á fasteignum í þessum kjörnum í því skyni að endurreisa þá. Hefur borgarráð nú heimilað að Arnarbakki 2-6 í Neðra Breiðholti verði keyptur ásamt eignum í Völvufelli 11 og 13-21. Þar hefur Nýlistasafnið m.a. verið til húsa en húsið býður upp á mikla möguleika, þar sem það er í nálægð við Gamla kaffihúsið, pólsku búðina og fleiri verslanir og þjónustu.
Borgin hyggst þróa þessa reiti þannig að hægt verði að auka byggingarheimildir á þeim. Þá verður auglýst eftir uppbyggingar og rekstraraðilum sem geta gert nýja og spennandi hluti í hverfinu.
Hverfiskjarnarnir munu því ganga í endurnýjun lífdaga með kaupunum.
Í Arnarbakka voru eitt sinn fjölbreyttar verslanir og þjónusta en undanfarin ár hefur verið afar lítið um að vera þar. Svipað er uppi á teningnum í Völvufelli en þar í kring hefur samt verið nokkuð lífleg starfsemi.
Í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar kemur fram að frumkvæði Reykjavíkurborgar muni leiða til hraðari uppbyggingar á þessum reitum, betri nýtingu og bættri ásýnd. Stefnt er að því að hefja skipulagsbreytingar á lóðunum í kjölfar kaupanna.
Reykjavíkurborg greiðir rúmlega 752 milljónir króna fyrir fasteignirnar.