Reykjavíkurborg endurgreiðir oftekna dráttarvexti

Stjórnsýsla Fjármál

""

Reykjavíkurborg mun endurgreiða oftekna dráttarvexti af fasteignagjöldum sem lagðir voru á  einstaklinga sem nutu tímabundinnar frestunar greiðslna eða greiðsluskjóls.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 159/2017, sem kveðinn var upp þann 8. mars 2018, var staðfest að kröfuhöfum er óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingar njóta tímabundinnar frestunar greiðslna eða á tímabili svokallaðs greiðsluskjóls vegna úrræðis greiðsluaðlögunar.

Í kjölfar dómsins liggur fyrir að Reykjavíkurborg var óheimilt að leggja dráttarvexti á fasteignagjöld í greiðsluskjóli skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Reykjavíkurborg hefur nú lokið við að reikna út oftekna dráttarvexti á fasteignagjöld sem verða endurgreiddir. Mun fasteignaeigendum eða þeim sem rétt eiga á endurgreiðslu verða gert viðvart bréflega um endurútreikning.

Leita má frekari upplýsinga með tölvupósti á netfangið: endurgreidsla@reykjavik.is