Reykjavíkurborg býður frítt internet á völdum stöðum

Samgöngur Umhverfi

""

Nú gefst íbúum og gestum Reykjavíkur tækifæri til að tengjast internetinu án endurgjalds á völdum stöðum innan borgarinnar. Þessir staðir eru meðal annars við Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, við Ráðhús Reykjavíkur, við Kjarvalsstaði á Klambratúni og við Laugardalslaug. 

Einungis þarf að opna staðarnetið WiFi4EU í snjalltækinu og með einum smelli eru notendur komnir með gjaldfrjálsan aðgang að internetinu.

WiFi4EU - Free Wifi for Europeans er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem styrkir uppsetningu á opnum þráðlausum netum fyrir almenning á vegum sveitarfélaga innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) með 15 þúsunda evra framlagi. WiFi4EU uppfyllir alla nýjustu staðla og er öflugt, öruggt og afkastamikið netkerfi.

Með uppsetningu á 10 sendum við valin almenningssvæði bætist Reykjavík í hóp rúmlega 20 sveitarfélaga á Íslandi og tæplega 30 þúsund borga og bæja um gjörvalla Evrópu sem bjóða opið internet.

Verkefnið hér á landi er unnið í samstarfi við sérfræðinga Sensa sem sjá um uppsetningu og rekstur þráðlausa netsins fyrir Reykjavíkurborg. Sensa er vottaður samstarfsaðili Cisco Meraki en netlausnin samanstendur af Meraki skipti (e. Switch) með svokölluð „multigigabit“ tengimöguleika sem m.a. gerir Wi-Fi 6 notkun mögulega í framtíðinni. Miðlægur Meraki eldveggur sér um að hámarka öryggi og verja alla notendur sem nýta sér frítt internet á þessum stöðum.Cisco hefur með Meraki netlausnum verið leiðandi búnaður þegar kemur að því að byggja upp örugg opin netkerfi hjá fyrirtækjum og stofnunum sökum áreiðanleika og öryggis.

„Reykjavík er þegar fremst á meðal jafningja þegar kemur að því að tengjast umheiminum og háhraða ljósleiðari hefur þegar verið tengdur inn á allflest heimili, fyrirtæki og stofnanir í borginni“ segir Óskar Sandholt sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar. „Þetta er því fyrst og fremst skemmtileg viðbót sem Evrópusambandið býður okkur upp á með WiFi4EU og gefur gestum og íbúum tækifæri til að hafa enn frekari samskipti sín á milli og deila sögum og myndum úr borginni með öðrum“.