Reykjavík sækir fram með Græna planinu

Stjórnsýsla Fjármál

""

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 og fimm ára áætlun 2020 – 2025 samþykkt í borgarstjórn í kvöld ásamt Græna planinu

Þrátt fyrir að COVID-19 veiti efnahag Reykjavíkurborgar þungt högg á þessu ári og því næsta snýr Reykjavíkurborg vörn í sókn með Græna planinu sem er viðbragðsáætlun borgarinnar gegn kórónuveirufaraldrinum. Borgin nýtir sér sterka stöðu sína og lágt skuldahlutfall til að mæta efnahagsáfallinu.

Hagstofan hefur spáð samdrætti á vergri landsframleiðsla um 7,6% á árinu sem yrði mesti samdráttur á síðustu 100 árum. Atvinnuleysi í Reykjavík hefur aukist mikið og var 10,1% í október síðastliðnum. Þrátt fyrir spá um aukinn hagvöxt á næstu árum gæti atvinnuleysi  áfram orðið hátt. Samhliða því hefur eftirspurn eftir fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg aukist mikið á árinu og má búast við að notendum fjölgi næstu árin.

Reykjavíkurborg snýr því vörn í sókn með stórauknum fjárfestingum á næstu árum og fjármálastefnu þrátt fyrir að umtalsverður rekstrarhalli blasi við. Aðgerðirnar eru sniðnar að því að draga úr atvinnuleysi en í leiðinni mun borgin fá grænni innviði og þéttari byggð.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2021-2025 hefur verið samþykkt í borgarstjórn.  Áætlunin ber skýrt merki um þá efnahagsörðugleika sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið en áætlað er að rekstrarniðurstaða A-hluta verði neikvæð um 11,3 milljarða króna. Í fimm ára áætlun er þó gert ráð fyrir að reksturinn muni verða jákvæður á ný eftir tvö ár.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að borgin og fyrirtæki hennar fari í miklar fjárfestingar til að draga úr efnahagsáfallinu. „Stóra verkefnið er að vinna gegn atvinnuleysi og efnahagssamdrætti og þróa borgina í græna átt með fjárfestingum. Heildarfjárfesting okkar á næstu þremur árum verður 175 milljarðar króna en þar eru B- hluta fyrirtæki okkar eins og Orkuveitan og Faxaflóahafnir meðtalin. Þessum fjárfestingum munu fylgja lántökur fyrst um sinn. Viðnámið tryggir þó að borgin mun vaxa út úr vandanum. Það eru réttu viðbrögðin. Græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr þessari kórónuveirukreppu. Með því munum við standa vörð um störfin, skapa ný störf og búa til betra samfélag þar sem engin verður útundan,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

A-hluti Reykjavíkurborgar og samstæða

Rekstrarniðurstaðan A-hluta á næsta ári er áætluð neikvæð um 11,3 milljarða króna.  Rekstrarniðurstaða samstæðu er áætluð neikvæð um 2,7 milljarða króna. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu frá árinu 2022 og jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta frá árinu 2023.  Veltufé frá rekstri lækkar á árinu 2021 en fer svo að stíga á ný. Í lok áætlunartímabilsins er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði 19,0% hjá samstæðu og 9,6% hjá A-hluta. Fjármálastefna og fjárfestingarstefna gera ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður frá árinu 2025.

Breytingar á fjárhagsáætlun á milli umræðna

Við seinni umræðu í borgarstjórn lagði meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fram nokkrar breytingar á fjárhagsáætlun 2021 sem voru samþykktar. Meðal breytinganna er að tryggja framkvæmd Græna plansins, bæta við framlög til móðurmálskennslu barna í leikskólum og grunnskólum auk þess sem framlög vegna sárafátæktar barna og fjölskyldna þeirra voru hækkuð.

 

Lykilfjárfestingar í Reykjavík til 2030 á tímabili Græna plansins:

 175 milljarðar í fjárfestingar á þremur árum

Á næstu þremur árum ætlar Reykjavíkurborg að verja 95 milljörðum í fjárfestingar. Stór hluti þeirra fellur undir grænar fjárfestingar. Fyrirtæki borgarinnar munu á sama tíma fjárfesta fyrir 80 milljarða, stærstu fjárfestingarnar verða í grænum innviðum og félagslegu húsnæði.

  1. Milljarður í ný störf og fimm milljarðar árlega í ný húsnæðisúrræði

Milljarði króna verður varið í að búa til ný störf fyrir atvinnulausa, stuðningsúrræði og virkni fyrir fólk á fjárhagsaðstoð á næsta ári. Yfir fimm milljarðar verða lagðir árlega á næstu árum í átak í uppbyggingu búsetuúrræða fatlaðs fólks og fyrir heimilislausa og fjölgun félagslegra leiguíbúða

  1. Græn samgöngubylting

Með Borgarlínu, orkuskiptum og hjólastígakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið verður bylting í grænum samgöngum. Reykjavík verður hjólaborg á heimsmælikvarða. Grænar fjárfestingar í samgöngusáttmála ríkis og SSH í Reykjavík verða yfir 50 milljarðar til 2030.

  1. 10 milljarðar í stafræna umbreytingu þjónustu

Allri þjónustu og afgreiðslu sem hægt er að færa á netið verður umbreytt á þremur árum með tíu milljarða fjárfestingu í upplýsingatækni og stafrænni umbreytingu borgarinnar.

  1. Nýir skólar, græn hverfi

Nýir skólar rísa í Skerjafirði, Vogabyggð og Ártúnshöfða og leikskólaplássum verður fjölgað til að taka inn ársgömul börn. Nýju hverfin á Ártúnshöfða og í Skerjafirði verða grænustu hverfi sem risið hafa í Reykjavík.

  1. 10 milljarðar í viðhaldsverkefni

Tíu milljörðum verður varið í viðhald næstu þrjú ár. Fjárveitingar til endurnýjunar eldra skólahúsnæðis verða stórhækkaðar og Borgarbókasafnið í Grófarhúsi og Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi verða endurnýjuð.

  1. Fjárfest í grænni borg

Götur í öllum hverfum fá grænna yfirbragð og meiri gróður, græn svæði og almenningsgarðar verða fegraðir, ásýnd borgarinnar verður blómlegri og skógrækt aukin með gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur.

  1. Þrjár nýjar sundlaugar, knatthús og íþróttaaðstaða

Lýðheilsa, hreyfing og íþróttaþátttaka verður efld með fimleikahúsum í Breiðholti og Árbæ, knatthúsi í Vesturbæ og betri íþróttaaðstöðu víða um borgina. Þrjár nýjar sundlaugar eru á tíu ára áætlun; í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Elliðaárvogi.

  1. Uppbygging útivistarsvæða um alla borg

Fleiri áningarstaðir og innviðir til útivistar byggðir upp í Elliðaárdal og Öskjuhlíð og sjóbaðsaðstaða útbúin við strandlengjuna. Vetrargarður í Breiðholti og skíðasvæðin í Bláfjöllum stórefld. Útivistaraðstaða bætt við Rauðavatn og á Hólmsheiði þar sem einnig verða gerðar reiðleiðir.

  1. 000 íbúðir á 10 árum

Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að fjárfesta 12 milljarða í innviðum þar sem næstu 10.000 íbúðir í Reykjavík rísa. Þær verða af öllum stærðum og gerðum, fyrir allan aldur og tekjuhópa og flestar staðsettar nálægt Borgarlínu og lifandi atvinnukjörnum.