Reykjavík í hópi innan við 10% borga sem fá toppeinkunn í loftslagsmálum

Umhverfi

Reykjavík við sjóinn

Reykjavíkurborg fær æðstu viðurkenningu og toppeinkunn fyrir að vera leiðandi borg í loftslagsmálum á alþjóðavísu. Reykjavík er ein af 95 borgum sem fá A í einkunn fyrir gagnsæi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum frá óháða matsfyrirtækinu CDP. Aðeins 9,8% af borgum sem fengu einkunn fyrir árið 2021 fengu A.

Ljósmynd/Arctic Images - Ragnar Th.

Alls skiluðu yfir þúsund borgir inn gögnum fyrir árið 2020. 965 borgir fá einkunn sem er töluverð fjölgun á lista CDP fyrir árið 2021 miðað við fyrra ár 2020 þegar 591 borg fékk einkunn.

„Þetta er mikilvæg staðfesting um að borgin sé á réttri leið. Samgöngur og úrgangur eru stærstu verkefni borga í heiminum á sviði loftslagsmála. Í samgöngumálum erum við að fjölga raunhæfum kostum til virkra ferðamátum með Borgarlínu, miklu fleiri hjólastígum og betri aðstæðum fyrir gangandi. Í úrgangsmálum erum við að hefja söfnun á lífrænum úrgangi við heimili og bæta meðferð úrgangs frá atvinnulífinu einnig með Gas- og jarðgerðarstöð SORPU sem er stærsta einstaka verkefni landsins í loftslagsmálum frá því að hitaveituvæðingin átti sér stað. Loftslagsmálin verða viðvarandi verkefni á næstu áratugum og ótrúlega mikilvægt að borgir séu áfram leiðandi,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.

Forysta í loftslagsmálum

Til að hljóta einkunnina A þurfa borgir að hafa birt samfélagslega losun gróðurhúsalofttegunda í borginni, sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sett sér markmið varðandi endurnýjanlega orku og birt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Borgir sem hljóta einkunnina A þurfa einnig að hafa lokið áhættumati varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum og kynnt hvernig áhrifum loftslagsbreytinga verður mætt. Margar borgir sem hljóta einkunnina A sýna margskonar forystu í loftslagsmálum og njóta pólitísks stuðnings í loftslagsaðgerðum.

Reykjavíkurborg stendur einmitt undir þessum kröfum. Borgin hefur birt upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík um árabil og hefur allt frá árinu 2016 verið með það markmið að verða kolefnishlutlaus 2040. Það markmið kemur einnig fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur.

Búið að auka kröfurnar

Reykjavíkurborg birti fyrstu aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum árið 2016 og hefur nýverið gefið út nýja aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2025. Sem leið að því markmiði að verða kolefnishlutlaus er stefnan sett á að draga úr losun um 300.000 tonn fram til ársins 2030. Stutt er við markmið Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C.

Vegferðin að því að verða kolefnishlutlaus borg er hluti af Græna plani borgarinnar sem er fjárfestingaráætlun til næstu 10 ára. Stór hluti fjárfestinganna er vegna verkefna og uppbyggingar hverfa og innviða sem varða veginn í átt að kolefnishlutleysi, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og aðlaga borgina að áhrifum loftslagsbreytinga.

Til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C þarf metnaðarfullar aðgerðir og þess vegna hafa kröfur til þess að hljóta einkunnina A verið auknar. Niðurstaðan er því sú að innan við 10% borga hljóta einkunnina A.

108 milljónir manna búa í borgunum á topplistanum

Borgir á topplistanum eru leiðandi í loftslagsmálum og grípa almennt til tvöfalt fleiri markvissra aðgerða gegn loftslagvá en þær borgir sem ekki ná A í einkunn og eru að sama skapi að koma auga á  tvöfalt fleiri tækifæri í loftslagsmálum, samkvæmt CDP.

Af þessum 95 borgum sem fá einkunnina A eru 46 nýjar á lista. Borgirnar eru vítt og breitt um heiminn; allt frá Kanada til Japan og frá Suður-Afríku til Nýja-Sjálands. Samtals búa 108 milljónir manns í þessum borgum, sem er þó aðeins lítill hluti af þeim 4,2 milljörðum manna sem búa í borgum um heim allan.

Tenglar

Helstu aðgerðir til að draga úr losun um 300.000 tonn til ársins 2030

Nánar um kolefnishlutlausa Reykjavík

Nánar um Græna planið

Topplisti CDP í heild sinni