Reykjavík í alþjóðlegt tengslanet tónlistarborga

Menning og listir

""

Þátttaka Reykjavíkur mun efla borgina sem tónlistarborg og skapa fjölmörg tækifæri til tengslamyndunar og tónlistarflutnings á erlendri grundu fyrir reykvískt tónlistarfólk, fagfólk í tónlist sem og mennta- og menningarstofnanir borgarinnar á tónlistarsviðinu 
 

Tónlistarborgin Reykjavík er nýjasti meðlimur í alþjóðlegu tengslaneti tónlistarborga, Music Cities Network (MCN), ásamt Bergen og Manchester. 

MCN var stofnað árið 2016 af Hamburg Music Business Association (IHM) og Sound Diplomacy og samanstendur nú af níu borgum: Berlín, Hamborg, Sydney, Manchester, Groningen, Nantes, Árósum, Bergen og Reykjavík.  Markmið tengslanetsins er að stuðla að samtali og samstarfi tónlistarfólks, fagaðila og menningar- og menntastofnanna þvert á tónlistarborgir, vinna að rannsóknum og miðla þekkingu og reynslu, auk þess að rýna í og miðla hugmyndum er varða tónlistarstefnu borga svo þátttökuborgirnar geti lært af fyrirmyndum og þannig orðið enn betri tónlistarborgir. 

 Á ​heimasíðu MCN​ segir að borgir sem geri tónlist hátt undir höfði auki verðmætasköpun, tengi saman menningarheima, haldi betur í hæfileikafólk, fjölgi menningarsinnuðum ferðamönnum, hafi jákvæð áhrif á ímynd borgarinnar út á við og stuðli að sjálfbæru tónlistarhagkerfi. Í þessu felst einstakt tækifæri tónlistarborga til að verða alþjóðlega mikilvægar miðstöðvar tónlistar og framleiðslu. 

Í fréttatilkynningu frá Music Cities Network kemur fram að þrátt fyrir smæð borgarinnar sé að finna mikinn fjölda af hæfileikaríku tónlistarfólki í Reykjavík sem geri borgina að áhugaverðri og einstakri tónlistarborg. Framúrstefnulegar tónlistarhátíðir í borginni laði ekki einungis til sín íslenska gesti heldur bæði erlenda gesti og fagfólk í tónlist sem skapi einstakt tækifæri fyrir tónlistariðnaðinn í borginni til að styrkja sitt alþjóðlega tengslanet á heimavelli. 

Þátttaka Reykjavíkur í Music Cities Network mun án efa styrkja Reykjavík sem tónlistarborg auk þess sem tónlistarfólk, fagfólk í tónlist og mennta- og menningarstofnanir í tónlist munu njóta góðs af. Í maí síðastliðnum fór jass-tónlistarfólkið María Magnúsdóttir og Ingi Bjarni Sigurðsson til Hamborgar í vikulanga listamannadvöl þar sem þau sinntu tónlistarsköpun með öðru evrópsku tónlistarfólki í hinu merka Clouds Hill hljóðveri auk þess að koma fram á Elbjazz tónlistarhátíðinni. Þann 19. september nk. mun svo Teitur Magnússon leika á Reeperbahn tónlistarhátíðinni á sérstöku Music Cities Network kvöldi auk þess sem reykvísku fagfólki í tónlist gefst tækifæri til að hitta mögulegt samstarfsfólk frá hinum tónlistarborgunum.