Reykjavík - brot af því besta
Opinn fundur verður haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur frá klukkan 9:00 til 12:30 föstudaginn 12. janúar næstkomandi. Farið verður yfir margt af því áhugaverðasta og mikilvægasta - og einnig því skemmtilegasta, sem er að gerast í borginni í dag.
Hvað er helst á döfinni í Reykjavík? Hvernig höldum við áfram að þróa borgina okkar í rétta átt?
Til umfjöllunar verður barnamenning, stafræn gróska, list í borginni, Vika6, úrræði fyrir heimilislausa, tónlist fyrir alla, brúarsmiðir, lýðheilsumál, hugverkageirinn, hjólreiðaborgin, frístundabylting, Carbfix, haftengd upplifun, hringrásargarður í Álfsnesi, endurreisn miðborgarinnar - og margt fleira!
Hvert erindi verður einungis fimm mínútur að lengd og má búast við líflegri morgunstund í Ráðhúsinu. Dagskrá byrjar og endar á tónlist en að viðburðinum loknum verður boðið upp á pylsur og með því.
Fundarstjórn verður í höndum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Húsið opnar klukkan 8:30 og boðið upp á kaffi og léttan morgunverð.
Öll velkomin.