Réttindaskólar og Réttindafrístund í Vesturbænum | Reykjavíkurborg

Réttindaskólar og Réttindafrístund í Vesturbænum

þriðjudagur, 20. nóvember 2018

Skrifað var undir samning í Hagaskóla á Alþjóðadegi barna um að  Grandaskóli, Hagaskóli, Melaskóli, Vesturbæjarskóli og frístundamiðstöðinTjörnin verði Réttindaskólar og Réttindafrístund. 

 • Skrifað undir samninginn um Réttindaskóla og Réttindafrístund í Vesturbænum.
  Skrifað undir samninginn um Réttindaskóla og Réttindafrístund í Vesturbænum.
 • Samningurinn var undirritaður í Hagaskóla og að því tilefni var réttindaráð Hagaskóla og Frosta kynnt.
  Samningurinn var undirritaður í Hagaskóla og að því tilefni var réttindaráð Hagaskóla og Frosta kynnt.

Það þýðir að ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er grundvöllur alls skóla- og frístundastarfs og að nemendur eru meðvituð um réttindi sín alla daga.

Verkefnið er samstarf Réttindaskóla og UNICEF á Íslandi en skólar og starfsstöðvar á vettvangi frítímans innleiða hugmyndafræði Réttindaskóla, sem UNICEF hefur þróað. Það þýðir að skólar og frístund samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur sáttmálans séu leiðarstef í  starfsemi þeirra. Barnasáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna og réttinda þeirra.

Þegar innleiðingu er lokið í Vesturbænum þurfa starfsstöðvarnar að uppfylla fimm forsendur Réttindaskóla UNICEF, sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þær eru;

 1. Þekking á réttindum barna - 42. grein Barnasáttmálans.
 2. Barna- og ungmennalýðræði – 12. grein Barnasáttmálans.
 3. Eldmóður fyrir réttindum barna – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
 4. Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
 5. Samstarf – 2., 3. og 6. grein Barnasáttmálans.

UNICEF á Íslandi heldur utan um innleiðingu Réttindaskóla og Réttindafrístundar og samtökin taka einnig við umsóknum frá nýjum skólum sem vilja taka þátt á heimasíðu UNICEF á Íslandi. Tveir skólar, Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli, og ein frístundamiðstöð, Kringlumýri, í Reykjavík hafa lokið innleiðingu og eru Réttindaskólar og Réttindafrístund.

Rannsóknir á áhrifum Réttindaskóla erlendis, hafa sýnt fram á jákvæðar breytingar á skólabrag, börn urðu betri í að standa vörð um eigin réttindi og vellíðan þeirra jókst.

Vefur um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Samningur um innleiðingu hugmyndafræði Réttindaskóla við starfsstöðvar