
Réttarholtsskóli bar sigur úr býtum á úrslitakvöldi Skrekks, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sem fram fór í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Siguratriðið ber nafnið Þetta unga fólk og er gagnrýni á hvernig hinir eldri líta niður til unglingamenningar. Í öðru sæti var Fellaskóli með atriðið Efra Breiðholt og í þriðja sæti var Seljaskóli með atriðið Yndislegt líf. Öll atriðin má sjá á síðu UngRÚV.
Í ár tóku 24 skólar og 630 unglingar þátt í undanúrslitum og komust átta skólar áfram í úrslitin.
- Árbæjarskóli, Svið lífsins
- Sæmundarskóli, Af hverju ég?
- Seljaskóli, Yndislegt líf
- Réttarholtsskóli, Þetta unga fólk
- Fellaskóli, Efra Breiðholt
- Hagaskóli, Gleym mér ey
- Langholtsskóli, Hin fullkomna þjóð
- Austurbæjarskóli, Kemur í ljós
Atriðin í ár fjölluðu um sjálfsmynd unglinga, áhrif samfélagsmiðla, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir semja atriðin og nýta allar sviðslistir í þau auk þess sem þau sjá um búninga, förðun, hár, ljós, hljóð og nú í fyrsta skipti í Skrekk, skjávarpa.
Skrekkur er risastórt samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV.
Ljósmyndari: Anton Bjarni