Rennibrautirnar Úlfur og Ylfa opnaðar í Dalslaug
Afmælisbörnin Aron Frosti Guðmundsson, Harpa Rakel Hólm og Jóel Orri Einarsson nemendur í Dalskóla ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vígðu nýju vatnsrennibrautirnar í Dalslaug með því að renna sér fyrstu ferðina í dag.
Rennibrautirnar eru þar með formlega opnar en þær hafa fengið nöfnin Úlfur og Ylfa og eru kærkomin viðbót við nýju sundlaugina í Úlfarsárdal. Rennibrautirnar eru með upphituðu stigahúsi og er Úlfur 10 metrar á hæð og 65 metra löng og Ylfa er 5 metrar á hæð og 35 metra löng.
Brautirnar eru lokuð rör, svartar að innan með ljósrifum til að auka upplifun þegar fólk rennir sér niður. Nöfnin voru valin í samkeppni meðal íbúa í hverfinu og annarra sundlaugargesta.
Hrafn Þór Jörgensson, forstöðumaður í Dalslaug segir að það ríki mikil gleði og tilhlökkun með opnun á nýju rennibrautunum. Það sé fagnaðarefni að búið sé að ná þessum áfanga sem mörg hafa beðið eftir og þá sérstaklega yngri kynslóðin.
Dalslaug er nýjasta sundlaug Reykvíkinga og var formlega opnuð 11. desember 2021. Hún er hluti af samfélagshúsi sem tengir meðal annars saman Dalskóla, borgarbókasafnið, sundlaugina og íþróttahús. VA arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnun sundlaugarinnar og bygginganna sáu einnig um að hanna rennibrautirnar en þeim var bætt við eftir kosningu íbúa í Hverfið mitt.
Opið verður í rennibrautirnar á virkum dögum frá kl. 14:30-21:00 og um helgar 10:00-18:00.