Regnbogi Hinsegin daga á Skólavörðustíg

Mannlíf Mannréttindi

""

Í dag fagnar Reykjavíkurborg margbreytileika mannlífsins! Hinsegin dagar í Reykjavík hófust í hádeginu í dag þegar stjórn Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, máluðu Regnboga frá Bergstaðastræti niður að Laugavegi/Bankastræti. Gleðilega Hinsegin daga! 

Hátíðin hófst með málningarvinnunni á hádegi og lífgar nú upp á umhverfið. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, málaði rendurnar ásamt stjórn Hinsegin daga undir dynjandi tónlist og var fjölmenni samankomið til að fylgjast með framkvæmdinni.

Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem setningarathöfn hátíðarinnar. Þetta er í annað sinn sem Skólavörðustígurinn er málaður en það er ekki að ástæðulausu að regnboginn fær þar aftur heimili á 40 ára afmælisári Samtakanna ’78, félags hinsegin fólks. Gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis eru tengdari baráttu hinsegin fólks en marga grunar en nánar verður fjallað um það í setningarræðu formanns Hinsegin daga á morgun. Áður hafa tröppur Menntaskólans í Reykjavík og heimreið Ráðhúss Reykjavíkur verið klædd regnboga í tilefni Hinsegin daga. 

Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega í Reykjavík frá árinu 1999 og hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju ári. Í ár standa Hinsegin dagar frá 7. til 12. ágúst og á dagskránni eru ríflega 30 viðburðir af ýmsum toga, þar má nefna sögusýningu, tónleika, dansleiki, leiksýningu, dragsýningu, uppistand og margt fleira auk afar fjölbreyttra fræðsluviðburða.

Stútfull dagskrá Hinsegin daga er að finna inná www.hinsegindagar.is

Megi gleði og taktu hljóma um alla borg á hinsegin dögum! 

 

Gleðilega hátíð