Rammaskipulag Skerjafjarðar verðlaunað

Skipulagsmál

""

Skipulagsfræðingar veita rammaskipulagi Skerjafjarðar verðlaun.

Skipulagsfræðingafélag Íslands veitti í gær rammaskipulagi Skerjafjarðar verðlaun. Skipulagið var unnið af ASK arkitektum, EFLU og Landslagi fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á aðalfundi Skipulagsfræðingafélagsins sem haldinn var á Hallveigarstöðum í gær.

Í áliti dómnefndar segir m.a. um rammaskipulagið í Skerjafirði.

„Rammaskipulag Skerjafjarðar markar að nokkru leyti tímamót í gerð rammaskipulags hér á landi og eru skipulagshöfundar framsæknir í viðleitni sinni til að leggja áherslu á góða umgjörð fyrir fjölbreytilega flóru íbúa og lifandi samfélag. Rammaskipulagið er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um uppbyggingu fjölbreytilegrar og vistvænnar borgarbyggðar á þessum mikilvæga lykilstað á höfuðborgarsvæðinu. Höfundar Rammaskipulagsins nýta sér staðsetningu og sérstöðu svæðisins til hagsbóta fyrir íbúa þess í nútíð og framtíð og íbúar alls höfuðborgarsvæðisins munu fá tækifæri til að njóta þeirra gæða sem svæðið býður upp á.

Kristín Una Sigurðardóttir, formaður stjórnar Skipulagsfræðingafélags Íslands,  afhenti Páli Gunnlaugssyni frá ASK arkitektum og samstarfsaðilum verðlaunin Páll kynnti síðan skipulagið en þar er notast við blágrænar ofanvatnslausnir, sameiginlegt bílastæðahús í stað bílakjallara undir húsum og fleiri nútímalegar lausnir í skipulagi.

Að þessu sinni voru 8 skipulagsverkefni tilnefnd til verðlaunanna og fjögur sérstök verkefni í tengslum við skipulag. 

 Verðlaun í flokknum sérstök verkefni í tengslum við skipulag hlaut Dr. Sigríður Kristjánsdóttir fyrir ritstjórn bókarinnaNordic Experiences of Sustainable Planning: Policy and Practice, sem út kom hjá bókaforlaginu Routledge í fyrra.

Margt spennandi er að gerast í skipulagsmálum á Íslandi í dag, ekki síst í Reykjavík,  og full ástæða til að fylgjast vel með og horfa björtum augum til framtíðar eins og segir á vef Skipulagsfræðingafélagsins.

Skipulagsfræðingafélag Íslands