Borgarráð samþykkti á fundi sínum 28. júní tillögu að rammaskipulagi fyrir byggð í Nýja Skerjafirði. Í tillögunni er gert ráð fyrir byggð fyrir um 1.200 íbúðir, nýjum skóla, verslun og þjónustu.
Rammaskipulagið tekur til landsvæðis sem er við enda litlu flugbrautarinnar svokölluðu sem hefur verið lokað. Svæðið liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs en af öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar til norðurs og austurs. Við suðurenda byggðarinnar er síðan strandlengja Skerjafjarðar.
Rammaskipulaginu er ætlað að vera leiðarljós varðandi uppbyggingu þessa nýja hverfis á þróunarreit (Þ5) sem er skilgreindur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í framhaldi af samþykkt skipulagsins verður hafist handa við deiliskipulag á einstökum reitum svæðisins en í kjölfar þess hefst uppbygging.
Rammaskipulagið gerir ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum og ríkulegum, grænum almenningsrýmum sem hönnuð verða út frá sólaráttum og skjóli. Hugað verður að félagslegri blöndun á svæðinu og hafa stúdentar og Bjarg, byggingarfélag verkalýðshreyfingarinnar, þegar fengið vilyrði fyrir lóðum í hinni nýju byggð.
Vanda á hönnun og gerð götugagna, lýsingar, gróðurs og yfirborðsefna. Gert er ráð fyrir leiksvæðum og dvalarsvæðum í inngörðum en þéttleiki byggðar verður nokkuð mikill á svæðinu og er því talið mikilvægt að almenningsrýmin séu vel hönnuð og góð. Fjölmörg torg og áningarsvæði verða á svæðinu. Gert er ráð fyrir að flugsögunnar verði minnst á svæðinu m.a. með svokölluðu „flugtorgi“.
Góð aðstaða verður fyrir ýmis konar sportbáta og seglskútur á svæðinu og er tiltekið að byggja eigi upp góða aðstöðu fyrir siglingaíþróttina á austurhluta strandarinnar. Öll strandlengjan þarna er sólrík og hentar því vel til dvalar, útivistar, sjóbaða og siglinga.
Notast verður við blágrænar ofanvatnslausnir í byggingum á svæðinu og skulu 60% allra þaka verða græn en það hægir á rennsli ofanvatns. Skipulagður er grænn miðás sem liggur í átt að miðlægu torgi þar sem gert er ráð fyrir biðstöð almenningssamgangna. Í þessu græna belti verður net leikvalla og áfangastaða.
Hugsað er fyrir tengingu hverfisins við áframhaldandi uppbyggingu í Vatnsmýri þegar flugvöllurinn víkur þaðan.
Þá er gert ráð fyrir tengingu almenningssamgangna við Kársnes í Kópavogi með byggingu brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.
Megináherslur rammaskipulags fyrir Skerjafjörð eru eftirfarandi.
- Að leita vistvænna skipulagslausna fyrir svæðið
- Að koma með framsæknar hugmyndir um fyrirkomulag nýrrar 3-5 hæða þéttrar borgarbyggðar með a.m.k. 800 íbúðum.
- Lögð er áhersla á heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.
- Að koma með tillögur um tengingar við helstu samgönguæðar í nágrenni við svæðið.
- Gera ráð fyrir tengingum frá fyrirhugaðri Fossvogsbrú inn á svæðið þar sem Borgarlínan mun mögulega liggja í framtíðinni.
- Að hugsa fyrir samgöngutengingum eftir að flugvöllurinn er farinn úr Vatnsmýri.
- Að vera meðvituð um umhverfi og auðlindir og mikilvægi nærliggjandi náttúrusvæða, strandlengjuna við Skerjafjörð og Öskjuhlíðinni.
- Að meta hvort gera eigi ráð fyrir landfyllingu og ef svo er, þá þarf að meta stærð hennar.
- Að huga að hæðarlegu m.t.t. flóðahættu í framtíðinni.
- Að gera ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum með grænum geirum og gegndræpu yfirborði þar sem því verður við komið.
- Að huga að grænum tenginum við náttúrusvæði við strönd Skerjafjarðar og náttúrusvæði í friðlandinu í Vatnsmýri.
- Að hugsa fyrir samgöngutengingum eftir að flugvöllurinn er farinn úr Vatnsmýrinni.
- Að vera meðvituð um umhverfi og auðlindir og mikilvægt nærliggjandi náttúrusvæða, strandlengjuna við Skerjafjörð og Öskjuhlíðinni.
Sérstaklega var hugað að eftirfarandi atriðum við vinnslu rammaskipulagsins sem ASK arkitektar unnu.
- Að tryggja gott samspil almenningsrýma, bygginga og nærumhverfis
- Að geta boðið upp á fjölbreyttar gerðir íbúða hvað varðar stærðir og útlit.
- Að gera ráð fyrir eðlilegu hlutfalli atvinnuhúsnæðis fyrir verslun, þjónustu, menningarstarfsemi og mögulega aðra atvinnustarfsemi.
- Að staðsetja samþættan leik- og grunnskóla á svæðinu.
- Að skoða afmörkun svæðisins með tilliti til afmörkunar annara deiliskipulagsáætlana, t.d. deiliskipulag fyrir Fossvogsbrú.