Rafvæðing fjárhagsaðstoðar fær silfur og brons í alþjóðlegri hönnunarkeppni

Velferð

""

Rafvæðing fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar hlaut á dögunum tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun í alþjóðlegu hönnunarkeppninni Indigo Design Awards. Keppnin leggur áherslu á að verðlauna framsækna og spennandi hönnun og er með fjölmarga flokka í stafrænni hönnun. 

Í dómnefnd verðlaunanna eru 48 einstaklingar frá fyrirtækjum eins og Google, IBM, Github, Ikea, Microsoft, sem og frá leiðandi hönnunarstofum, háskólasamfélaginu, og sjálfstætt starfandi hönnuðir. Fjárhagsaðstoðin fékk silfurverðlaun í tveimur flokkum, annars vegar fyrir notendavæna hönnun og gott viðmót og hins vegar fyrir gagnvirka hönnun. Einnig hlaut verkefnið bronsverðlaun fyrir að stuðla að jákvæðum samfélagslegum breytingum.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Kolibri út frá því að láta þarfir umsækjenda ráða ferðinni. Umsóknarferlið var gert aðgengilegt og upplifun umsækjenda endurhönnuð. Skúli Valberg, framkvæmdastjóri Kolibri, segist stoltur af því samstarfsverkefni að gera fjárhagsaðstoð aðgengilega á vefnum. „Samstarfið tikkaði í öll box um árangursríka teymissamvinnu. Mjög mikilvægt reyndist hvernig borgin hefur tekið upp notendamiðuð og teymisdrifin vinnubrögð sem smellpassa við nútímaleg vinnubrögð í hönnun og vefþróun. Það gaf okkur kraft og hugrekki til að troða nýjar slóðir í hvernig þjónusta er framsett rafrænt, hvernig samskipti við íbúa eru stórbætt, og vinnubrögð borgarinnar gerð markvissari.“

Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, segir rafvæðingu fjárhagsaðstoðar þegar hafa sparað bæði notendum og starfsfólki velferðarsviðs dýrmætan tíma. Það sé algjör umbreyting fyrir notendur að geta sótt um fjárhagsaðstoð í gegnum síma eða tölvu, í stað þess að mæta á staðinn með alla tilheyrandi pappíra. „Í mars sóttu 81% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð um með rafrænum hætti og við erum núna að vinna að því að hækka þetta hlutfall. Þessi lausn hefur reynst ómetanleg á tímum Covid-19 þegar samkomutakmarkanir hafa verið í gildi. Rafræna fjárhagsaðstoðin var fyrsta stóra verkefnið af þessu tagi og er ákveðin fyrirmynd við þróun nýrra lausna. Á næstu mánuðum fer einmitt í loftið kerfi þar sem notendur þjónustu við fatlað fólk geta sótt rafrænt um viðtal við ráðgjafa.“