Rafíþróttadeildir innan íþróttafélaga

Menning og listir Íþróttir og útivist

""

Borgarstjórn hefur samþykkt að vísa tillögu um rafíþróttadeildir innan íþróttafélaga í Reykjavík til meðferðar hjá menningar- íþrótta og tómstundaráði.

Markmiðið er að styðja við og styrkja þau félög sem hafa hug á að koma á fót rafíþróttadeildum og lagt er til að iðkendur geti nýtt sér frístundakort Reykjavíkur líkt og með aðrar íþróttagreinar í samræmi við reglur um frístundakortið.

Þátttaka barna og ungmenna í íþróttastarfi getur haft mjög jákvæð áhrif á félagsfærni barna, ekki síst til framtíðar litið. Rannsóknir hafa sýnt fram á þessi jákvæðu tengsl, en nauðsynlegt er að börn fái þjálfun í félagsfærni enda getur slík færni hjálpað þeim á öllum stigum lífsins, bæði í leik og starfi.

Frásagnir af börnum sem einangra sig félagslega, eru heima í tölvunni og geta jafnvel ekki slitið sig frá henni eru orðnar mun algengari en áður var. Reykjavíkurborg og íþróttafélögin í borginni geta lagt sitt af mörkum í að snúa þessari þróun við og nýta tæknina til góðs.

Rafíþróttir hafa verið að ryðja sér til rúms víða á Norðurlöndunum. Rafíþróttir ganga út á að börn og unglingar mæli sér mót og æfi sig saman sem lið og einstaklingar í alls konar tölvuleikjum. Rafíþróttir eru þannig eins og hefðbundnar íþróttir í þeim skilningi að iðkendur hittast á æfingum og keppa svo sín á milli á mótum, sams konar mótum og íþróttamótum. Þetta eitt og sér fær ungmenni til þess að fara út úr húsi, hitta aðra einstaklinga og mynda nauðsynleg félagsleg tengsl. Þá hefur þátttaka í skipulögðu hópastarfi jákvæðar afleiðingar almennt og læra ungmenni þar m.a. markmiðasetningu, sjálfsaga, ábyrgð og tilfinningastjórnun svo fátt eitt sé nefnt. Þá eru rafíþróttadeildir víða á Norðurlöndunum orðnar mjög umsvifamiklar í starfsemi félaganna. Í Danmörku njóta starfræktar rafíþróttadeildir mikilla vinsælda meðal iðkenda. Raunar hafa þær vaxið mjög hratt á síðustu árum enda njóta tölvuleikir sívaxandi vinsælda. Þar eru líkamlegar æfingar hluti af rafíþróttastarfinu. Þátttaka foreldra hefur jafnframt verið mikil, s.s. eins og gerist og gengur í hefðbundnu sjálfboðastarfi innan íþróttahreyfingarinnar.

Með innleiðingu rafíþrótta í starf allra íþróttafélaganna í Reykjavík, má koma í veg fyrir félagslega einangrun og auka félagsfærni barna og unglinga. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar hefur verið falin nánari útfærsla á stuðningi borgarinnar við íþróttafélögin.