Rafhjólin reyndust vel

Samgöngur Umhverfi

""

Rafhjólin sem Reykjavíkurborg lánaði í fyrrasumar reyndust vel og kannanir sem gerðar voru meðal þátttakenda draga fram áhugaverðar staðreyndir sem unnið hefur verið með. Verkefnið heppnaðist svo vel að það verður endurtekið í sumar með 25 nýjum rafhjólum.

Fyrsti hópurinn í tilraunaverkefninu í sumar fær rafhjól afhent í byrjun næstu viku, 15. apríl. Opið er fyrir umsóknir um þátttöku á vefsvæðinu reykjavik.is/rafhjol. Hver hópur mun hafa hjól sín í 5 vikur. Úthlutað verður til eins hóps í einu og er umsóknum haldið opnum þar til úthlutað hefur verið í síðasta hópinn sem verður í september.

„Rafhjól eru fyrir marga orðin samkeppnishæfur valkostur við einkabílinn“, segir Kristinn J. Eysteinsson verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg um helstu niðurstöður byggðar á svörum þeirra sem fengu rafhjól lánuð á liðnu sumri.   Þátttakendur sögðu rafhjól vera góðan valkost til að komast leiðar sinnar. Flestir notuðu rafhjólin til að komast í og úr vinnu. Yfir 50% fóru 4 – 5 daga yfir vikuna, en samanlegt notuðu 85% þátttakenda hjólin 2 sinnum eða oftar í viku. Sumir notuðu hjólin til allra ferða yfir vikuna.  Þeir sem notuðu rafhjól hefðu langflestir ella notað einkabíl til sinna ferða, 77% sem ökumenn og 12% sem farþegi í einkabíl.

Þátttakendur voru spurðir áður en þeir fengu hjólin, meðan þeir voru með hjólin og að loknu þeirra lánstímabili. Einnig var aflað GPS gagna sem  notuð verða síðar.

Minna stress með rafhjóli og brekkur ekki lengur hindrun      

Yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda sagði  að notkun rafhjóls minnka stress og álag, hafi bætt líðan og stuðlað að jákvæðum áhrif á heilsu og líkamlegt form. Um 70 – 90% svaraði þessum spurningum jákvætt. Aðeins 10% þátttakenda töldu hjólreiðarnar auka stress vegna lengri ferðatíma.  

„Með rafhjóli eru veður og brekkur ekki hindrun lengur,“ segir Kristinn um niðurstöðurnar. Þátttakendur nefndu einnig tímaþáttinn sem kost og að þeir þyrftu ekki að fara í sturtu þegar þeir kæmu hjólandi í vinnuna. Sumir þátttakendur töldu rafhjól vera tækifæri til að losa sig við annan bílinn á heimilinu.  Nærri 2/3 þátttakenda höfðu ýmist hvatt þá til kaupa á rafhjóli, þeir væru að leita að rafhjóli eða ætluðu að kaupa sér rafhjól í náinni framtíð.

Áhugi fyrir verkefninu í fyrra var svo góður að ekki var hægt að lána öllum sem óskuðu rafhjól. Rúmlega þúsund manns sóttu um þátttöku en alls fengu 125 manns hjól lánuð eftir valferli.  Bætt var við einu tímabili til að fá reynslu af rafhjólum á hausttímabili.

Tengt efni