Rætt um forvarnir í Háaleitisskóla

Skóli og frístund

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti á Forvarnardegi nemendur í 9. bekk Háaleitisskóla í morgun og ræddi við þá um skaðsemi rafrettna og gildi góðs svefns.

Forvarnardagur er haldinn 2. október um allt land en hann er átaksverkefni undir faglegri forystu landlæknis í samstarfi við forseta Íslands, ÍSÍ, Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga, Félag framhaldsskóla, Skátana, UMFÍ og Rannsóknir og greiningu.

Borgarstjóri heimsækir jafnan skóla á þessum degi og að þessu sinni varð Háaleitisskóli/Álftamýri fyrir valinu. Hann ræddi við nemendur í 9. bekk ræddu áherslur dagsins en þær eru að þessu sinni leiðir til að stemma stigu við aukinni notkun rafrettna meðal unglinga í efstu bekkjum grunnskólans. Þá var í umræðum farið yfir helstu liði í forvörnum; góð samskipti og samveru með fjölskyldu og virka þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.   

Samkvæmt könnunum hefur notkun á rafrettum færst mjög í vöxt meðal íslenskra ungmenna síðustu árin og hefur heilbrigðisráðherra beðið um úttekt á útbreiðslu þeirra hér á landi. 9,5% nemenda í 9. bekk á landsvísu segjast hafa notað rafsígarettu 20 sinnum eða oftar og 17,8% nemenda í 10. bekk.

Þá sýna kannanir að foreldrar virðast hafa mildari viðhorf til rafrettna en annarra vímuefna að því er fram kemur á vef Landlæknisembættisins og því vert að benda þeim á að þeir hafi tækifæri til að upplýsa börn sín betur um skaðsemi þeirra.