Ráðgjafaþjónusta fyrir innflytjendur efld

Velferð Mannlíf

""

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur um nokkurra ára skeið veitt innflytjendum ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar og reynslan sýnir að þörfin er brýn. Nú á að efla enn frekar þjónustuna og bjóða upp á ráðgjöf í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu 15 á fimmtudögum milli klukkan 14.00 og 16.00

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur um nokkurra ára skeið veitt innflytjendum ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar.   Ráðgjafarnir eru til húsa í þjónustuveri borgarinnar á Höfðatorgi við Borgartún og sýnir reynslan að þörfin  er brýn. Ráðgjafarnir veita m.a. upplýsingar um þjónustu við fjölskyldur, atvinnumál, dvalarleyfi, ríkisborgararéttindi og réttindi og skyldur í íslensku samfélagi. 

Samkvæmt tölulegum upplýsingum fyrstu sex mánuði ársins 2013 kemur fram að karlar leita sér helst upplýsinga um atvinnumál eða 80% þeirra sem fengu ráðgjöf. Þá leituðu 78% þeirra sér upplýsinga um réttindi sín. Mun fleiri konur höfðu samband vegna fjölskyldumála eða 89% og þær voru líka í meirihluta þegar kom að fyrirspurnum um húsnæði (67%) og skóla- og frístundamál (67%). Nokkuð jöfn skipting var á milli kynja þegar spurt var um fjárhagsaðstoð og heilbrigðisþjónustu.

Nú á að efla enn frekar ráðgjafaþjónustuna og bjóða upp á ráðgjöf í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu 15 á fimmtudögum milli klukkan 14.00 og 16.00. Markmiðið er  að ná til fleiri innflytjenda og um leið kynna þá þjónustu sem er í boði á Borgarbókasafninu, s.s. bækur á fjölmörgum tungumálum, fjölbreytt úrval tímarita, tónlistar og kvikmynda, netaðgang og margt fleira.

Ráðgjafarnir sem veita þessa þjónustu eru sjálfir innflytjendur og tala ensku, pólsku, filippseysku, litháísku og rússnesku. Boðið er upp á þjónustu túlks ef fyrirspyrjandi talar önnur tungumál. Ráðgjöfin  er ókeypis og starfsmenn eru bundnir trúnaði.