Ráðabrugg ungs fólks - skráning hafin á málþing

Skóli og frístund Mannlíf

""

Reykjavíkurráð ungmenna og ungmennaráð Skátanna efna til málþings 27. september í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem ræða á aukna þátttöku ungs fólks um brýn samfélagsmál. Skráning er hafin á málþingið.  

Málþingið er fyrir fulltrúa af landinu öllu, í alls konar ungmennaráðum, starfsfólk ungmennaráða og aðra áhugasama um starf ungmennaráða og valdeflingu ungs fólks. Til þess að auka samtal ráðamanna og ungs fólks er hvert ungmennaráð sem ætlar að mæta á málþingið hvatt til að bjóða með sér 1-2 ráðamönnum úr sínu nærsamfélagi til að taka þátt í samtali um þátttöku ungs fólk í samfélaginu og þau málefni sem skipta ungmenni mestu máli.

Málþingið hefst kl. 10:00 og stendur yfir allan daginn. Umfjöllunarefni verða meðal annars mikilvægi valdeflingar ungs fólks, samstarf ungmennaráða, stofnun ungmennaráða, skipulagning aðgerða, lýðræðisleg vinna í ungmennaráðum og hvaða lærdómur felst í því að taka þátt í starfi ungmennaráða. Fyrir hádegi verða fyrirlestrar en málstofur og vettvangur fyrir umræður og miðlun hugmynda eftir hádegi. Ítarlegri dagskrá verður kynnt þegar nær dregur málþinginu.

Aðgangur að málþinginu er þátttakendum að kostnaðarlausu en nauðsynlegt er að skrá sig. Boðið verður upp á ferðastyrki fyrir þá sem koma lengra að. Endalegur styrkur mun ráðast af því hversu margir óska eftir ferðastyrk við skráningu á málþingið.

Markmið málþingsins eru að:

  • Skapa samráðsvettvang fyrir ungmenni sem starfa í fjölbreyttum ungmennaráðum.
  • Skapa samráðsvettvang fyrir starfsfólk og aðra áhugasama um starfsemi ungmennaráða af fjölbreyttum toga (ekki bara ungmennaráð sveitarfélaganna).
  • Veita tækifæri til að miðla hugmyndum og verkefnum mismunandi ungmennaráða.
  • Ýta undir og styðja við framþróun í starfi ungmennaráða.
  • Miðla góðum verkefnum og vinnulagi í starfi ungmennaráða.
  • Stuðla að auknu samstarfi á milli ungmennaráða.
  • Veita ráðamönnum og öðrum áhugasömum um starf ungmennaráða tækifæri til að kynnast starfi ráðanna.
  • Skapa vettvang fyrir samtal á milli ráðamanna og ungmenna.
  • Benda ráðamönnum á mikilvægi þess að vera í samráði við ungt fólk og að hlustað sé á ungt fólk.

Upplýsingar um málþingið á Facebook. 

Skráning á málþingið.  

Fyrirspurnir varðandi málþingið berist til Sigurgeirs (sigurgeir@skatar.is) eða Huldu Valdísar (huldavv@reykjavik.is).