Persónuvernd krefst breytinga á notkun skýjaþjónustu Google

Skóli og frístund

Nemendur vinna á tölvur í grunnskóla.

Persónuvernd hefur gert Reykjavíkurborg að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga grunnskólanemenda í nemendakerfi Google, Google Workspace for Education, sé að fullu í samræmi við persónuverndarlög. Persónuvernd telur þó ekki tilefni til að vinnsla í nemendakerfinu verði stöðvuð verði breytingar gerðar í samræmi við fyrirmæli, í síðasta lagi þann 29. febrúar næstkomandi. 

Úttektir gerðar á stærri sveitarfélögum 

Persónuvernd beindi úttekt sinni á notkun skýjaþjónustu í grunnskólastarfi að stærri sveitarfélögum landsins. Það voru Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær og Reykjanesbær sem einnig þurfa að samræma vinnsluna við persónuverndarlög. Í úttektunum kom fram að Google vinnur persónuupplýsingar grunnskólanemenda í nemendakerfinu umfram fyrirmæli sveitarfélaganna og ekki innan þess tilgangs sem sveitarfélögin höfðu skilgreint. Stjórnavaldssektir frá tveimur milljónum til þriggja milljóna króna voru lagðar á öll sveitarfélögin. Reykjavíkurborg er gert að greiða tvær milljónir. 

Ekkert tjón liggur fyrir 

Við sektarákvörðun var litið til þess að ekkert tjón virtist hafa orðið vegna brotanna og að sveitarfélögin svöruðu erindum Persónuverndar við meðferð málsins með skýrum og greinargóðum hætti. Þá höfðu flest þeirra endurskoðað verklag í tengslum við varðveislutíma persónuupplýsinga í kerfinu og hafði Reykjavíkurborg þegar gengið í að breyta verklagi vegna þessa á meðan á úttektinni stóð.