Pepp Ísland fær Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Hópurinn sem hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkur vinstra megin og hópurinn sem fékk hvatningarverðlaun hægra megin ásamt borgarstjóra, mannréttindastjóra ofl. gestum.
Hópurinn sem hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkur vinstra megin og hópurinn sem fékk hvatningarverðlaun hægra megin ásamt borgarstjóra, mannréttindastjóra ofl. gestum.

Borgarstjóri Reykjavíkur afhenti í dag Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur fulltrúa Pepp Ísland mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 en samtökin berjast gegn fátækt og verja hagsmuni þeirra sem við hana búa.  

Verðlaunin voru veitt í Höfða , á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar, en markmið dagsins er að vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar.  Það var mannréttinda,- nýsköpunar- og lýðræðisráð sem samþykkti á fundi sínum þann 9. maí s.l. að Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt yrði vinningshafi ársins. Handhafi verðlaunanna hlýtur að launum kr. 600.000,-.

Jafningjafræðsla fyrir fólk í fátækt

Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt er valdeflandi hugsjónastarf byggt á jafningjafræðslu fyrir fólk í fátækt og félagslegri einangrun. Í öllu starfi er lögð áhersla á jafnrétti og baráttu gegn hvers konar mismunun. Starf samtakanna er byggt á sjálfboðaliðum úr hópi fólks í fátækt og félagslegri einangrun sem fer úr hlutverki þiggjanda yfir í að veita öðrum í sömu sporum aðstoð.  Samtökin hafa einnig verið með valdeflandi sjálfstyrkingu fyrir sjálfboðaliða. Þar kemur saman fólk, sem býr við fátækt, er jaðarsett í okkar samfélagi en á athvarf hjá Pepp Ísland og finnur sig velkomið.

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.

Áður hafa hlotið mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar:

  • Rótin, félag um konur áföll og vímugjafa 2021
  • Solaris hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi 2020
  • Móðurmál – Association of Bilingualism 2019
  • Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi  -W.O.M.E.N. Á Íslandi 2018
  • Með okkar augum 2017
  • Þórunn Ólafsdóttir 2016
  • Frú Ragnheiður 2015
  • Geðhjálp 2014
  • Kvennaathvarfið 2013
  • List án landamæra 2012
  • Hinsegin dagar 2011
  • Blátt áfram 2010
  • Rauði Kross Íslands 2009
  • Alþjóðahús 2008

Liðsauki fær hvatningarverðlaun

Mannréttinda-,-nýsköpunar- og lýðræðisráð samþykkti einnig þann 9. maí s.l. að veita hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2022 til Liðsauka í sjálfstæðri búsetu og tók Þóra Kristín Reinharðsdóttir við verðlaununum fyrir hönd Liðsauka.

Sólarhringsþjónusta fyrir ungt fólk með flóknar þjónustuþarfir

Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að Liðsauki í sjálfstæðri búsetu er sólarhringsþjónusta á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir ungt fólk með flóknar þjónustuþarfir. Þjónustan er metnaðarfull og veitir margháttaðan stuðning. Markmiðið með verkefninu er að efla færni einstaklinga til að búa sjálfstætt á eigin heimilum og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu, hvort sem um er að ræða aðstoð við að finna sér vinnu eða nám við hæfi eða auka virkni þeirra í frístundum. Um er að ræða einstaklingsbundna þjónustu við viðkvæman hóp.  Verðlaunin eru í formi viðurkenningarskjals.

Áður hafa hlotið hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs: 

  • Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar 2021
  • Deild málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir: Vettvangs- og ráðgjafarteymi  (VoR),Tæknilæsi fyrir fullorðna, félagsstarf fullorðinna: Rannveig Ernudóttir, Huginn Þór Jóhannsson og Francesco Barbaccia, Brúarsmiðir Miðju máls og Læsis: Magdalena E. Andrésdóttir, Kriselle Lou Souson Jónsdóttir og Salah Karim 2020
  • Réttindaráð Hagaskóla 2019
  • Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Sundhallar og Laugardalslaugar og verkefnið Móttaka nýrra íbúa, samstarfsaðilar eru Árbæjarskóli, Ársel og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts 2018
  • Tjörnin Frístundamiðstöð 2017