Pepp Ísland fær Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar
Borgarstjóri Reykjavíkur afhenti í dag Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur fulltrúa Pepp Ísland mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 en samtökin berjast gegn fátækt og verja hagsmuni þeirra sem við hana búa.
Verðlaunin voru veitt í Höfða , á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar, en markmið dagsins er að vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar. Það var mannréttinda,- nýsköpunar- og lýðræðisráð sem samþykkti á fundi sínum þann 9. maí s.l. að Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt yrði vinningshafi ársins. Handhafi verðlaunanna hlýtur að launum kr. 600.000,-.
Jafningjafræðsla fyrir fólk í fátækt
Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt er valdeflandi hugsjónastarf byggt á jafningjafræðslu fyrir fólk í fátækt og félagslegri einangrun. Í öllu starfi er lögð áhersla á jafnrétti og baráttu gegn hvers konar mismunun. Starf samtakanna er byggt á sjálfboðaliðum úr hópi fólks í fátækt og félagslegri einangrun sem fer úr hlutverki þiggjanda yfir í að veita öðrum í sömu sporum aðstoð. Samtökin hafa einnig verið með valdeflandi sjálfstyrkingu fyrir sjálfboðaliða. Þar kemur saman fólk, sem býr við fátækt, er jaðarsett í okkar samfélagi en á athvarf hjá Pepp Ísland og finnur sig velkomið.
Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.
Áður hafa hlotið mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar:
- Rótin, félag um konur áföll og vímugjafa 2021
- Solaris hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi 2020
- Móðurmál – Association of Bilingualism 2019
- Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi -W.O.M.E.N. Á Íslandi 2018
- Með okkar augum 2017
- Þórunn Ólafsdóttir 2016
- Frú Ragnheiður 2015
- Geðhjálp 2014
- Kvennaathvarfið 2013
- List án landamæra 2012
- Hinsegin dagar 2011
- Blátt áfram 2010
- Rauði Kross Íslands 2009
- Alþjóðahús 2008
Myndasafn
Liðsauki fær hvatningarverðlaun
Mannréttinda-,-nýsköpunar- og lýðræðisráð samþykkti einnig þann 9. maí s.l. að veita hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 2022 til Liðsauka í sjálfstæðri búsetu og tók Þóra Kristín Reinharðsdóttir við verðlaununum fyrir hönd Liðsauka.
Sólarhringsþjónusta fyrir ungt fólk með flóknar þjónustuþarfir
Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að Liðsauki í sjálfstæðri búsetu er sólarhringsþjónusta á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir ungt fólk með flóknar þjónustuþarfir. Þjónustan er metnaðarfull og veitir margháttaðan stuðning. Markmiðið með verkefninu er að efla færni einstaklinga til að búa sjálfstætt á eigin heimilum og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu, hvort sem um er að ræða aðstoð við að finna sér vinnu eða nám við hæfi eða auka virkni þeirra í frístundum. Um er að ræða einstaklingsbundna þjónustu við viðkvæman hóp. Verðlaunin eru í formi viðurkenningarskjals.
Áður hafa hlotið hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
- Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar 2021
- Deild málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir: Vettvangs- og ráðgjafarteymi (VoR),Tæknilæsi fyrir fullorðna, félagsstarf fullorðinna: Rannveig Ernudóttir, Huginn Þór Jóhannsson og Francesco Barbaccia, Brúarsmiðir Miðju máls og Læsis: Magdalena E. Andrésdóttir, Kriselle Lou Souson Jónsdóttir og Salah Karim 2020
- Réttindaráð Hagaskóla 2019
- Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Sundhallar og Laugardalslaugar og verkefnið Móttaka nýrra íbúa, samstarfsaðilar eru Árbæjarskóli, Ársel og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts 2018
- Tjörnin Frístundamiðstöð 2017