Pawel Bartoszek tekur við embætti forseta borgarstjórnar

Stjórnsýsla

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, við minningarathöfn um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði

Á fundi borgarstjórnar í gær var Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, kjörinn í embætti forseta borgarstjórnar.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hefur gegnt embættinu í eitt ár.

Pawel Bartoszek var kjörinn forseti borgarstjórnar til eins árs auk fjögurra varaforseta sem eru:

1. varaforseti er Sabine Leskopf.

2. varaforseti er Eyþór Laxdal Arnalds.

3. varaforseti er Guðrún Ögmundsdóttir.

4. varaforseti er Marta Guðjónsdóttir.

Forseti borgarstjórnar boðar til borgarstjórnarfundar og semur dagskrá borgarstjórnarfundar og stýrir umræðum. Hann setur fund, kannar lögmæti hans, stjórnar umræðum og afgreiðslu mála og slítur fundi þegar dagskrá hans er tæmd. Hann sér um að fundargerðir séu færðar í gerðabók og að allar tillögur og ályktanir séu réttar og nákvæmlega bókaðar, svo og hverja afgreiðslu þær hljóta. Forseti sér um að allt fari löglega og skipulega fram á fundum borgarstjórnar. Hann úrskurðar um skilning á fundarsköpum en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar borgarstjórnar.