Oslóartréð fellt í Heiðmörk

Mannlíf

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi Oslóartréð á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í morgun.

Borgarstjóri kom fyrst við í skemmu Skógræktarfélagsins í Heiðmörk þar sem hann fékk viðeigandi öryggisbúnað og vélar til verksins hjá starfsmönnum Skógræktarfélagsins. Því næst var ekið að Þorgeirsstöðum í Heiðmörk þar sem eru 10-12 metra há sitkagrenitré sem eru 60 ára gömul og því gróðursett fljótlega eftir stofnun Heiðmerkur sem útivistarsvæðis. Búið var að velja tré og gekk verkið vel.

Oslóartréð verður sett upp á Austurvelli og  jólaljósin á trénu tendruð þann 27. nóvember nk. Framvegis verður íslenskt grenitré notað til að prýða Austurvöll en Oslóarborg hefur aðkomu að viðburðinum. Tréð sem borgarstjóri felldi í morgun var 12 metrar og 18 sentimetrar að lengd og 57 ára gamalt.

Ennfremur var fellt tré sem verður fært Færeyingum að gjöf og kemur til með að prýða Tinghúsvöllinn  í miðborg Þórshafnar. Borgarstjóri mun tendra tréð í Þórshöfn laugardaginn 26. nóvember nk.
Fyrr í mánuðinum var fellt tré sem Reykjavíkurborg færir, höfuðborg Grænlands, Nuuk að gjöf en það er nú komið í skip á leið til Grænlands. Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar afhendir tréð við hátíðlega athöfn í Nuuk þann 25. nóvember nk. 

Eimskip sem hefur í gegnum árin flutt Oslóartréð til Íslands mun sjá um flutning á trjánum til  Grænlands og Færeyja.
Fulltrúar allra borganna voru viðstaddir fellinguna í Heiðmörk í morgun.