Óskað eftir umsóknum um Torg í biðstöðu

Mannlíf Skipulagsmál

""

Reykjavíkurborg óskar er eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka almenningssvæði í borginni í fóstur. Verkefnið felst í að endurskilgreina svæði sem ekki eru fastmótuð til framtíðar og geta auðgað mannlíf í borginni.

Í ár er ætlunin að leggja áherslu á verkefni utan miðborgarinnar. Umsækjendur eru því hvattir til að velta fyrir sér möguleikum almenningsrýma í ýmsum hverfum utan miðborgar og hvernig þau geta styrkt mannlífið þar og eflt heillavænleg tengsl. Engin tiltekin svæði eru sérstaklega auglýst til umsóknar heldur geta umsækjendur sótt um það svæði í borgarlandinu sem þeir óska eða sent umsókn án tiltekins svæðis og óskað eftir aðstoð verkefnastjóra fyrir Torg í biðstöðu að finna verkefninu heppilegt svæði.

Verkefnin geta verið af ýmsum toga; markaðir, leikir, listviðburðir, innsetningar, endurhönnun svæða eða hvað eina sem styrkir og bætir mannlíf á svæðinu. Hóparnir sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þess með tilraunum. Um leið er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin. Að jafnaði stendur verkefnið yfir frá maí til september ár hvert.

Nánari upplýsingar um verkefnið Torg í biðstöðu má finna á vefsíðunni reykjavik.is/torg-i-bidstodu.

Umsóknarfrestur verkefna fyrir sumarið 2018 er til og með sunnudeginum 25. mars og skal senda umsóknir á netfangið olafur.ingibergsson@reykjavik.is og merkja með efnislínunni (subject): „Umsókn um biðsvæði“. Umsóknir þurfa að vera í fylgiskjali með póstinum og koma skal fram

  • Staðsetning verkefnisins ef sótt er um tiltekið svæði
  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta og myndum/teikningum og útlistun á efnisnotkun
  • Verk- og tímaáætlun
  • Stutt greinargerð um hvernig verkefnið er talið geta unnið að markmiðum Torgs í biðstöðu og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030

Ferilskrá þarf að fylgja og/eða kynnisbréf allra umsækjenda þar sem fram kemur fullt nafn, kennitala, netfang og símanúmer. 

Tengill

Torg í biðstöðu