Gatnamót Laugavegs og Frakkastígs verða betrumbætt en afmörkun göngugötusvæðisins verður gerð skýrari. Lögð verður áhersla á öryggi gangandi og betra aðgengi fyrir alla. Framkvæmdir verða undirbúnar fyrir páska og fara síðan á fullt strax eftir páska. Áætlaður framkvæmdatími er um átta vikur.
Fær yfirbragð göngugötu
Götukantar verða endurgerðir og yfirborð hellulagt. Framkvæmdin felst eingöngu í yfirborði götunnar en ekki er um lagnavinnu að ræða. Gatan verður þrengd á meðan vinnu stendur.
Núverandi grásteinskantur verður meðal annars tekinn upp að hluta og lagður aftur þvert yfir Laugaveg meðfram gatnamótum Frakkastígs. Svæðið fær yfirbragð göngugötu. Einnig verður aukið svæði til útiveitinga.
Afmörkun göngugötuhluta Laugavegs við Frakkastíg vegna framkvæmdarinnar felst í betra aðgengi fyrir alla. Öryggi virkra ferðamáta eins og gangandi á göngugötusvæðinu verður verulega bætt með betri sýnileika göngugötunnar og minni óæskilegri umferð.
Aðgengi gangandi og hjólandi tryggt á framkvæmdatíma
Leyfið gildir frá 23. mars til 31. maí og verður gatan þrengd um tíma eftir páska en ekki lokað nema stutta stund í einu. Aðgengi virkra ferðamáta verður tryggt á framkvæmdartíma. Verktakinn, Garðyrkjuþjónustan, afmarkar vinnusvæðið og gætir að öryggi vegfarenda. Honum ber skylda til að tryggja örugga hjáleið fyrir vegfarendur framhjá vinnusvæðinu.