Opin vinnustofa um göngugötur

Göngugötur Samgöngur

""

Þrjú þverfagleg teymi hafa verið valin til að taka þátt í mótun göngugötuhluta Laugavegar, Vegamótastígs og Skólavörðustígs. Teymin verða með opna vinnustofu frá föstudegi til sunnudags og eru áhugasamir hvattir til að líta við.

Eins og áður hefur komið fram hefur umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar valið þrjú þverfagleg teymi til að taka þátt í mótun þessara göngugatna. Teymin munu hanna göngugöturnar í samvinnu við samræmingarhönnuð verkefnisins 9 skref, DLD – Dagný Land Design og borgarhönnunarteymi Reykjavíkurborgar ásamt því sem M/STUDIO nýsköpunarstofa heldur utan um hönnunarspretti og samráð við hagsmunaaðila göngugatnanna og almenning.

Tilgangurinn að auka gagnsæi og fá fleiri sjónarmið

Hönnunarteymin þrjú eru byrjuð að móta fyrstu hugmyndir og nú er komið að opinni vinnustofu fyrir alla þá sem láta sig málið varða dagana 26.-28. febrúar. Vinnustofan er við Skólavörðustíg 3. Þar mun M/STUDIO sjá til þess að hugmyndir hönnuða séu sýnilegar og jafnframt hvetja til umræðu og fá endurgjöf á þá vinnu sem fer fram. Tilgangurinn með þessu er að auka gagnsæi í hönnunarferlinu og hvetja hagaðila sem og almenning til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Ef þú ert með góða hugmynd eða hefur brennandi áhuga á að taka þátt í hönnunarferlinu máttu endilega mæta!  

Fyrir þá sem ekki treysta sér til að mæta vegna aðstæðna í samfélaginu ætla skipuleggjendur eftir bestu getu að miðla því sem fram fer á Facebook-síðu verkefnisins.

Vinnustofan við Skólavörðustíg 3 er opin:

föstudag 26. febrúar 12.00 – 19.00
laugardag 27. febrúar 10.00 – 19.00
sunnudag 28. febrúar 10.00 – 19.00