Opin leiksvæði endurgerð á sjö stöðum í borginni

Umhverfi

""

Opin leiksvæði við Víðihlíð, Grænuhlíð, Ljósheima, Vesturás, Þverás, Deildarás og Kleifarveg verða endurgerð í sumar. Endurgerðin felur í sér landmótun, endurnýjun gróðurbeða, leiktækja og yfirborðsefna eftir þörfum. Áhersla er á öryggismál eins fallvarnarefni og aðgengi fyrir alla. Áætlaður kostnaður er 120 milljónir króna.

Unnið er eftir leiksvæðastefnu borgarinnar sem byggir á því að leiksvæðin hafi mismunandi tilgang. Þeim er skipt í þrjá flokka; hefðbundna leikvelli, þemavelli og svokölluð andrými. Sérstaklega er hugað að aðgengi fyrir alla meðal annars með því að skipta út yfirborðsefni og setja ramp. Gróður á leiksvæðum er valinn með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika.

Flokkarnir þrír gera það að verkum að opnu leiksvæðin verða fjölbreyttari og hverju öðru ólík. Hefðbundin leiksvæði eru með mismunandi leiktæki, bekki og gróður en á þemavöllum fær fersk hugsun og skemmtileg og öðruvísi nálgun við leik að njóta sín. Loks hafa andrýmin grænt yfirbragð þar sem hægt er að njóta hvíldar, skjóls og sólar í daglegu lífi.

Hvað verður gert hvar?

  • Í Víðihlíð og Grænuhlíð verða útbúin hefðbundin leiksvæði þar sem skipt verður um yfirborðsefni, sett upp ný leiktæki auk gróðursetningar og landmótunar.
  • Í Ljósheimum verður gerður þemavöllur með tilheyrandi landmótun, nýjum yfirborðsefnum, leiktækjum, gróðursetningu og hellulögn. Þema vallarins er fuglar.
  • Í Vesturási, Þverási, Deildarási og við Kleifarveg verða útbúin andrými. Um er að ræða landmótun, gróðursetningu, hellulögn og bekki.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir í maí og að þeim ljúki í nóvember á þessu ári.

Skoða teikningar af því hvernig leiksvæðin koma til með að líta út eftir endurgerð.

Skoða staðsetningu allra opinna leiksvæða í borginni í Borgarvefsjá.