Öll frístundaheimili Tjarnarinnar regnbogavottuð

Regnbogahlaup Tjarnarinnar maí 2022

Ósvikin gleði skein af börnunum sem hlupu í regnbogahlaupi frístundaheimila Tjarnarinnar í síðustu viku.

Rými fyrir alla í starfi Tjarnarinnar

Hlaupið var í tilefni þess að öll frístundaheimili Tjarnarinnar hafa fengið regnbogavottun frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og til að fagna öllu litrófi mannlegs fjölbreytileika. Hlaupið og gleðin eiga að undirstrika að það er rými fyrir alla í starfinu.

Hlaupið hófst við leikskólann Sæborg og hlaupið var eftir göngustígnum við Ægissíðu að Faxaskjóli. Starfsmenn köstuðu marglitu litadufti yfir börnin til að sýna stuðning við fjölbreytileikann. Eftir að börnin komu í mark, litrík og sæl, voru þau verðlaunuð með ís og skemmtiatriði hófust þar sem BMX brós og listamennirnir Huginn og Haki skemmtu krökkunum með listum sínum. Að þessu loknu héldu börnin til baka, ánægð með vel heppnaðan dag og er mikill vilji til að gera hlaupið að árlegum viðburði.