Ólafur Ólafsson, rennismiður, hefur verið valinn Reykvíkingur ársins 2013. Ólafur er einn af stofnfélögum íþróttafélagsins Aspar sem er íþróttafélag fatlaðs og þroskahamlaðs fólks. Félagið var stofnað 18 maí árið 1980 á Þingvöllum. Ólafur settist þá í stjórn félagsins. Tveimur árum síðar var hann kjörinn formaður félagsins og hefur verið það óslitið síðan eða í 31 ár. Starf félagsins hefur vaxið og dafnað í formannstíð Ólafs en félagið rekur umfangsmikla íþróttastarfsemi fyrir fatlað fólk og þroskamlað. Í félaginu eru 250 skráðir félagar en af þeim stunda 177 æfingar í hinum ýmsu íþróttagreinum, svo sem sundi, keilu, boccia, frjálsum íþróttum, knattspyrnu og listhlaupi á skautum.
Ólafur hefur starfað sem sjálfboðaliði við að byggja upp íþróttastarf fatlaðs fólks og þroskahamlaðra alla sína formannstíð. Ólafur er Vestmannaeyingur og bjó í Vestmannaeyjum til ársins 1979. Hann og fjölskylda hans fluttust þá til Reykjavíkur. Ástæðan fyrir því að Ólafur fór að vinna að íþróttamálefnum fatlaðs fólks var sú að hann á þroskaheftan son sem gekk í Öskjuhlíðarskóla. „Hann var tvo vetur í Öskjuhlíðarskóla á meðan við bjuggum í Vestmannaeyjum og bjó hann þá á fósturheimili á meðan. Þegar kom að því að taka hann úr skólanum sagði hann hingað og ekki lengra og þá ákváðum við að flytja,“ segir Ólafur.
„Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum. Íþróttafélagið Ösp var síðan stofnað á fjölmennum stofnfundi árið 1980. Sjálfur hef ég ekki stundað íþróttir að neinu ráði nema sund mér til heilsubótar. Ég byrjaði með sundæfingar hjá Ösp. Núna erum við hins vegar með 19 launaða þjálfara. Sumt af okkar íþróttafólki er svo fatlað að það þarf nánast að vera maður á mann.“
Ekki hefur farið framhjá neinum að félagar í Öspinni hafa náð stórgóðum árangri á alþjóðlegum mótum, t.d. Jón Margeir sem er uppalinn hjá Ösp og vann til gullverðlauna á Olympíu móti fatlaðra í London 2012.
Ólafur starfaði sem rennismiður hjá vélsmiðjunni Magna og Þór í Vestmannaeyjum í mörg ár. Hann vann síðan sem verslunarmaður hjá véladeild Fálkans frá 1979 en lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir þremur árum. Hann og fjölskylda hans hafa búið í Hlíðunum frá árinu 1982 og hefur Ólafur setið í hverfisráði Hlíða. „Það er gott að búa hér í Hlíðunum,“ segir hann og brosir.
Ólafur opnaði Elliðaárnar í morgun ásamt borgarstjóranum Jóni Gnarr í blíðskaparveðri. Það tók Reykvíking ársins aðeins tæpar tvær mínútur að setja í vænan lax í Fossinum sem hann landaði með dyggri aðstoð hins kunna leiðsögumanns Ásgeirs Heiðars. Sex laxar veiddust á fyrsta klukkutímanum í Elliðaánum sem bendir til góðrar laxgengdar í árnar sem Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur umsjón með. „Þetta var skemmtilegt. Ég hef aldrei veitt lax áður,“ sagði Ólafur eftir að hann hafði landað laxinum.