Ofreiknaður matarkostnaðar við fundi borgarstjórnar

Stjórnsýsla Fjármál

""

Þau mistök áttu sér stað í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs til forsætisnefndar að matarkostnaður á fundum borgarstjórnar var ofreiknaður. Fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum og eru þær fréttir byggðar á röngum forsendum. 

Þau mistök áttu sér stað í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs til forsætisnefndar að matarkostnaður á fundum borgarstjórnar var ofreiknaður.

Við nánari skoðun er kostnaður við einn matarskammt frá Múlakaffi að jafnaði um 3.900 kr að kvöldi til. Kostnaðurinn er ekki 10.000 kr. eða 15.000 kr. á mann eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í dag. Um er að ræða venjulegan mötuneytismat. Á meðan fundi stendur geta fundarmenn og annað starfsfólk jafnframt fengið sér kaffi, ávexti og kex. Meðalkostnaður við mat á borgarstjórnarfundum er því ekki 360.223 á fund heldur er meðalkostnaður 208.000 á fund.

Ástæða þessara mistaka eru þau að allur kostnaður vegna funda borgarstjórnar, funda borgarráðs eða annarra funda og námskeiða sem haldin voru á sama tímabili á vegum skrifstofu borgarstjórnar var tekinn saman sem kostnaður við fundi borgarstjórnar. 

Um 35 - 40 manns koma að fundum borgarstjórnar. Er þar um að ræða borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa, starfsfólk Reykjavíkurborgar sem vinnur við fundahaldið, aðstoðarmenn flokkanna og öryggisverði. Kostnaðurinn deilist því á talsvert fleiri en einungis borgarfulltrúana 23.