Nýttu útskriftaverkefnið fyrir börn og unglinga frá Palestínu

Skóli og frístund

Útskriftarverkefni stelpna í 10. bekk Langholtsskóla

Fimm stelpur sem voru að klára 10. bekk í Langholtsskóla völdu að styðja börn og unglinga frá Gaza þegar þær unnu lokaverkefni sitt við skólann. Í lokaverkefninu fá nemendur alveg frjálsar hendur með hvað þau vilja gera sem hefur getið af sér mörg spennandi verkefni.

Hönnuðu stuttermaboli, bökuðu kleinur og gerðu armbönd

„Við vorum hópur af stelpum sem vissum ekki alveg hvað við áttum að gera en svo kom þessi hugmynd upp. Fyrst ætluðum við að safna pening og senda út til Palestínu en hugsuðum svo að kannski væri betra að við myndum gera eitthvað fyrir fólkið sem er hér,“ segir Ísold Embla Hrannarsdóttir, ein þeirra sem stóðu að verkefninu. Hinar heita, Rebekka, Salka, Móa og Þórey Anna og hafa þær allar unnið að því að búa til vörur sem þær hafa selt. Þær hafa hannað stuttermaboli, bakað kleinur og búið til armbönd og hefur allur ágóði farið í söfnunina og er heildarupphæðin komin upp í 1,2 milljónir.

Útskriftarverkefni stelpna í 10. bekk Langholtsskóla

Vilja hjálpa þeim að komast inn í samfélagið

„Okkur fannst við geta gert meira ef við myndum hjálpa þeim að komast inn í samfélagið og finna að þau séu velkomin. Það er erfitt að koma í annað land, kunna ekki tungumálið og þekkja ekki menninguna,“ segir Ísold. Stelpurnar mættu í skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk frá Palestínu sem skóla- og frístundasvið starfrækir til að gefa þeim möguleika á mjúkri lendingu í íslensku samfélagi. Þær hittu þar börn og unglinga frá Palestínu til að heyra hvað þeim þykir spennandi og langar að gera.

Eru spenntar að kynnast þeim betur

Ýmsar hugmyndir voru ræddar eins og að fara á teikninámskeið, fara saman í keilu, í trampólíngarð og í fótbolta. Stelpurnar fimm eru allar að vinna í leikskóla í júní en í júlí stendur til að byrja að gera eitthvað saman. Ísold og vinkonur hennar voru mjög ánægðar með heimsóknina í skóla- og fjölskyldumiðstöðina. „Þetta var ótrúlega falleg stund og koma pínu á óvart hvað þau voru spennt og glöð þegar þau tóku á móti okkur. Það var ótrúlega gaman að hitta þau og við erum mjög spenntar að kynnast þeim betur,“ segir Ísold að lokum en þær luku fyrstu heimsókninni með því að fara með krökkunum út á fótboltavöll.